Innlent

Hvergi til nægi­leg þekking til að finna endan­lega lausn á raka­vanda­málum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ráðherra segir vandann liggja í röngum vinnubrögðum og vanrækslu.
Ráðherra segir vandann liggja í röngum vinnubrögðum og vanrækslu. Vísir/Vilhelm

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra telur að ekki liggi fyrir nægileg þekking hér á landi þannig að finna megi lausnir á rakavandamálum í byggingum. Þetta kemur fram í svörum ráðherra við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um byggingarannsóknir.

Þar er vísað til skýrslu sem ráðherra skilaði Alþingi í janúar síðastliðnum, þar sem segir að tjón af völdum rakaskemmda og myglusvepps í fasteignum hafi fylgt mannkyninu frá upphafi siðmenningar og að ekki hafi auðnast að vinna bug á þeirri meinsemd þrátt fyrir miklar rannsóknir og regluverk.

„Þetta gildir jafnt um Ísland sem og önnur lönd því tæknilegar kröfur um loftun og rakavernd í regluverki okkar Íslendinga eru svipaðar og hjá nágrannaþjóðunum. Ljóst er að ekki er til staðar nægileg þekking, hvorki hérlendis né annars staðar, svo að finna megi endanlegar lausnir á rakavandamálum í byggingum,“ segir í svörum ráðherra.

Lilja Rafney, varaþingmaður VG, spurði hvort ástæða væri til að endurskoða núgildandi byggingareglugerð í ljósi frétta af leka í nýlegum byggingum. 

Ráðherra segir starfshóp hafa komist að þeirri niðurstöðu að orsakir myglusvepps virtust helst liggja í röngum vinnubrögðum við hönnun og mannvirkjagerð, vanrækslu á viðhaldi og rangri notkun á húsnæði. Ekki væri þörf á umfangsmiklum lagabreytingum heldur aukinni fræðslu, leiðbeiningum, menntun fagaðila og auknum rannsóknum.

„Yfirferð og endurskoðun á regluverki byggingariðnaðarins er viðvarandi og samfellt verkefni ráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, í samstarfi við helstu hagaðila, svo sem sveitarfélög og aðila byggingariðnaðarins, og í þeirri vinnu er stöðugt litið til ýmissa byggingargalla sem geta komið fram, svo sem lekavandamála. Í þeirri vinnu verður byggingarreglugerðin endurskoðuð.“

Ráðherra segist í svarinu telja að samræma þurfi matsviðmið og skoðunaraðferðir þegar glímt er við galla og mistök í fasteignum eða ranga hönnun þeirra. Þá sé ástæða til að yfirfara eftirlit með framlögðum verkteikningum og framfylgd þeirra og það sé best gert með því að efla rafræna stjórnsýslu í mannvirkjagerð.

„Ráðherra telur að með eflingu rafrænnar stjórnsýslu þessara mála, og vistun gagna í miðlægri gátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði gæðaeftirlit í byggingariðnaði eflt með sem hagstæðustum hætti og án þess að auka flækjustig slíks eftirlits.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.