Fótbolti

Besti hópurinn sem Arnar hefur verið með

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Þór segir hópinn ekki hafa verið betri í hans stjórnartíð.
Arnar Þór segir hópinn ekki hafa verið betri í hans stjórnartíð. Vísir/Diego

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, kveðst aldrei hafa verið með betri leikmannahóp í höndunum heldur en í yfirstandandi verkefni þar sem Ísland spilar fyrstu tvo leiki sína í undankeppni EM 2024.

Fjölmargir leikmenn hafa verið fjarverandi í stjórnartíð Arnars með landsliðið. Meiðsli hafa haft sitt að segja en einnig bönn frá Knattspyrnusambandi Íslands eftir að skandall skók sambandið haustið 2021 þegar þónokkrum leikmanna var gert að víkja vegna rannsóknar á meintum brotum þeirra gegn konum.

Margir þeirra sem fóru með Íslandi á EM 2016 og HM 2018 hafa nú snúið aftur í hópinn eftir ýmist meiðsli eða bönn og kveðst Arnar ekki hafa haft betri hóp áður.

„Ég get alveg verið sammála því. Ég sagði það líka í síðustu viku að það var erfiðast fyrir mig og okkur að velja þennan hóp. Það eru leikmenn sem eru ekki í hópnum sem eiga það fyllilega skilið líka,“ sagði Arnar á blaðamannfundi fyrir komandi leik Íslands við Bosníu annað kvöld.

„Það er eitthvað sem er mjög jákvætt og eitthvað sem við getum tengt við það sem við byrjuðum á 2022, þá lögðum við upp í það að byggja upp sterkari hóp og yrðum betur undir þessa keppni búnir,“ sagði Arnar enn fremur.

Ísland mætir Bosníu klukkan 19:45 annað kvöld í Bosníu. Vísir fylgir liðinu eftir og mun lýsa leiknum beint á vefnum auk þess að gera allt saman upp í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×