Fótbolti

Tveir mánuðir frá síðasta marki Dzeko

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dzeko hefur ekki skorað mikið að undanförnu.
Dzeko hefur ekki skorað mikið að undanförnu. Getty

Edin Dzeko er án efa skærasta stjarna bosníska landsliðsins sem mætir því íslenska á Bilino Polje-vellinum í Zenica klukkan 19:45 í kvöld. Hann hefur hins vegar oft verið á betra skriði en undanfarið.

Dzeko er leikmaður Inter Milan á Ítalíu en hefur glímt við töluverða markaþurrð síðustu vikur með liðinu.

Hann er orðinn 37 ára gamall og er bæði leikjahæsti og markahæsti leikmaður í sögu Bosníu. Hann hefur leikið 126 landsleiki og skorað í þeim 64 mörk.

Honum hefur aftur á móti gengið illa að skora síðustu vikur með Inter Milan en hans síðasta mark kom í 3-0 sigri á AC Milan í Ofurbikar Ítalíu þann 17. janúar. Tveir mánuðir eru því liðnir frá síðasta marki kappans og hefur hann leikið ellefu deildarleiki frá því hann skoraði síðast í Seríu A, í 1-0 sigri á Napoli í upphafi árs.

Framherjinn stæðilegi á hins vegar til að stíga upp með landsliðinu og er til alls líklegur í kvöld gegn íslenskri vörn sem hefur oft verið betur mönnuð. Sverrir Ingi Ingason dró sig úr landsliðshópnum og þá verður Aron Einar Gunnarsson í leikbanni.

Leikur Íslands og Bosníu hefst klukkan 19:45 í kvöld og verður lýst beint á Vísi auk þess sem allt saman verður gert vel upp eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×