Innlent

Segja Ójón af­bökun á Jóni og segja nei

Atli Ísleifsson skrifar
Ekki er möguleiki fyrir Íslendinga að nefna börn sín Ójón.
Ekki er möguleiki fyrir Íslendinga að nefna börn sín Ójón. Getty

Mannanafnanefnd hefur hafnað beiðni um að nafnið Ójón verði samþykkt og fært í mannanafnaskrá.

Nefndin fundaði í gær og segir í úrskurði nefndarinnar að nafnið sé afbökun á hinu rótgróna eiginnafni Jón og því sé ekki hægt að samþykkja beiðnina.

Fram kemur að erindið hafi fyrst borist nefndinni í febrúar og fyrst tekið fyrir á fundi fyrr í mánuðinum en afgreiðslunni frestað til þess fundar sem fram fór í gær.

Í lögum um mannanöfn segir að til að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfi öll fjögur skilyrði 5. grein laganna að vera uppfyllt:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Nefndin telur að eiginnafnið Ójón uppfylli skilyrði númer eitt, þrjú og fjögur. Það taki íslenskri eignarfallsendingu, Ójóns, sé ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og sé ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

„Hér reynir aftur á móti á skilyrði númer tvö. Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þar segir einnig að skilyrðinu sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Nefndin lítur svo á að eiginnafnið Ójón sé afbökun á hinu rótgróna eiginnafni Jón og því ekki hægt að samþykkja það,“ segir í úrskurði nefndarinnar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×