Innlent

Undirbúningur hafinn fyrir notkun rafbyssa

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri gerir ráð fyrir að þjálfun lögreglumanna í notkun rafbyssa geti hafist í sumar eða haust.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri gerir ráð fyrir að þjálfun lögreglumanna í notkun rafbyssa geti hafist í sumar eða haust. Vísir/Egill

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir undirbúning hafin fyrir notkun lögreglunnar á rafbyssum. Ágreiningur var milli ráðherra Vinstri grænna og dómsmálaráðherra um reglugerð sem hann gaf út og heimilaði notkun rafbyssa. Sigríður Björk segir að nú standi yfir undirbúningur útboðs á vopnunum fyrir lögreglu og hvaða tæknimöguleikar væru bestir.

Fréttastofa náði tali af Sigríði Björk þegar hún var á leið á fræðslufund hjá þjóðaröryggisráði í Ráðherrabústaðnum.

„Það er sérstaklega verið að velta fyrir sér hvernig samhengið á milli búkmyndavélanna og rafbyssanna er, hvort þær virkjast sjálfkrafa og hvort það þurfi þá einhvern sérstakan búnað út frá þeim búkmyndavélum sem við erum með. Síðan þarf að setja reglur og þjálfa og vinna með þetta allt saman, vinna með rannsóknir og hafa samráð. Þetta tekur bara allt sinn tíma. Núna erum við náttúrulega að undirbúa leiðtogafundinn þannig að við væntanlega munum ekki fara á fullt í þennan undirbúning fyrr en að honum loknum.“

Er hugmyndin sú að allir lögreglumenn gangi með rafbyssur?

Nei, hugmyndin er minna mengi. Ég held að það sé ekki verið að hugsa þetta sem persónulegan úthlutaðan búnað heldur er frekar verið að reyna að byrja með ákveðið mengi ákveðinna hópa og sjá hvernig þetta gengur, læra af meðferðinni og vanda sig við innleiðinguna og notkunina. Ég held að það sé kannski mikilvægast í þessu sambandi. Þetta er nýt tog við þurfum að passa að öllum réttum ferlum sé fylgt, að við lærum af þeim mistökum sem hafa verið gerð annars staðar og nýtum þá kosti sem eru af þessu tæki.“

Sigríður var innt eftir tímaramma; hvenær hún sæi fyrir sér að lögreglumenn gætu hafið notkun á rafbyssum.

„Það fer náttúrulega dálítið eftir því hvenær við náum að fá þetta til landsins. Við þurfum að þjálfa á nákvæmlega þennan sama búnað. Við höfum verði að horfa á sumar eða haust til þess að þjálfa og vonandi þá fer þetta sem fyrst í notkun eftir að þjálfun er búin og öll ytri umgjörðin er komin.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×