Erlent

Líkams­leifar pilts grafnar upp vegna Mur­d­augh-málsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Murdaugh var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að bana eiginkonu sinni og syni.
Murdaugh var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að bana eiginkonu sinni og syni. AP/The Post And Courier/Andrew J. Whitaker

Til stendur að grafa upp líkamsleifar Stephen Smith, sem var 19 ára þegar hann fannst látinn á sveitavegi nærri Moselle, heimili lögmannsins Alex Murdaugh. Fyrir tveimur vikum var Murdaugh fundinn sekur um að hafa myrt son sinn og eiginkonu.

„Þetta er árið hans Stephens,“ sagði móðir hans Sandy Smith í samtali við NBC News. Þá þakkaði hún þeim sem styrktu hana á GoFundMe, þar sem hún safnaði fyrir því að láta grafa upp líkamsleifar sonar síns.

Andlát Smith hefur löngum þótt grunsamlegt en þegar hann fannst látinn fyrir sex árum voru áverkar á líkinu sem virtust benda til þess að hann hefði þurft að verja sig frá árás. Meinafræðingurinn í málinu úrskurðaði hins vegar að Smith hefði látist eftir að hafa fengið hliðarspegil bifreiðar í höfuðið.

Lögregla ákvað að opna aftur rannsókn málsins eftir að Murdaugh var handtekinn, grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni, hinni 52 ára Maggie, og syni sínum, hinum 22 ára Paul, að bana. Ný sönnunargögn voru sögð hafa komið fram við rannsókn morðanna.

Skömmu eftir að Smith fannst látinn bárust lögreglu ábendingar um að annar sonur Murdaugh, Buster, hefði haft eitthvað með málið að gera. Buster og Smith útskrifuðust úr sama skóla árið 2014 og þá var því haldið fram að þeir hefðu átt í ástarsambandi.

Önnur grunsamleg dauðsföll tengd Murdaugh fjölskyldunni verða einnig skoðuð nánar. Til að mynda hefur lögregla greint frá því að til standi að grafa upp líkamsleifar ráðskonunnar Gloriu Satterfield, sem var sögð hafa látist af slysförum.

Þá hafa spurningar vaknað um dauða Mallory Beach, 19 ára, sem lést þegar Paul Mallory ók bát á brú árið 2019.


Tengdar fréttir

Murdaugh dæmdur í lífstíðarfangelsi

Bandaríski lögmaðurinn Alex Murdaugh hefur verið dæmdur í tvöfallt lífstíðarfangelsi fyrir að myrða eiginkonu sína og son. Murdaugh var dæmdur sekur í nótt en dómskvaðning fór fram nú fyrir skömmu í Suður-Karólínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×