Erlent

Munu eiga ó­form­legan fund í dag og snæða saman í kvöld

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Xi er fyrsti þjóðarleiðtoginn sem fundar með Pútín eftir að handtökuskipun var gefin út á hendur síðarnefnda.
Xi er fyrsti þjóðarleiðtoginn sem fundar með Pútín eftir að handtökuskipun var gefin út á hendur síðarnefnda. AP/Alexei Druzhinin

Xi Jinping, forseti Kína, er væntanlegur til Moskvu eftir hádegi í dag þar sem hann mun eiga óformlegan fund með Vladimir Pútín Rússlandsforseta og snæða með honum kvöldverð. 

Á morgun munu leiðtogarnir og fulltrúar ríkjanna síðan funda formlega.

Xi verður fyrsti þjóðarleiðtoginn til að funda með Pútín eftir að Alþjóðaglæpadómstóllinn gaf út handtökuskipun á hendur síðarnefnda.

Pútín lofaði Xi sem „gamlan góðan vin“ í aðsendri grein sem birtist í dagblaði í Kína í morgun en á sama tíma birtist grein eftir Xi í Rossiiskaya Gazeta, þar sem hann kallaði eftir gagnhyggju í málefnum Úkraínu. Sagði forsetinn að friðaráætlun Kínverja, sem þeir birtu í febrúar, endurspeglaði alþjóðleg sjónarmið og miðaði að því að takmarka „afleiðingar“ af átökunum.

„Það eru engar einfaldar lausnir við flóknum vandamálum,“ ítrekaði Xi þó í blaðagrein sinni.

Stjórnvöld í Kína hafa sagt heimsókn forsetans til Rússlands „friðarför“ en Xi er sagður munu freista þess að setja sig í hlutverk málamiðlara á sama tíma og hann vill styrkja sambandið við Rússland.

Fregnir hafa borist af því að Xi hyggist ræða við Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta eftir heimsókn sína til Moskvu. Bandaríkjamenn hafa tekið hugmyndinni fagnandi. Eru þeir sagðir binda vonir við að samtal milli leiðtoganna muni sannfæra Kínverja um að sjá Rússum ekki fyrir vopnum.

Það yrði stór rós í hnappagat Xi ef honum tækist raunverulega að miðla málum og koma á alvöru viðræðum milli Rússa og Úkraínumanna. Menn virðast þó hóflega bjartsýnir á að það takist.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.