Enski boltinn

Fyrir­liðinn fyrr­verandi segir leik­menn Man Utd þurfa spark í aftur­endann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Casemiro og Roy Keane þegar sá fyrrnefndi var tilkynntur sem leikmaður félagsins. Casemiro lék ekki gegn Fulham þar sem hann er í leikbanni.
Casemiro og Roy Keane þegar sá fyrrnefndi var tilkynntur sem leikmaður félagsins. Casemiro lék ekki gegn Fulham þar sem hann er í leikbanni. Ash Donelon/Getty Images

Þrátt fyrir 3-1 sigur Manchester United á Fulham í 8-liða úrslitum FA-bikarkeppninnar á sunnudag segir fyrirliðinn fyrrverandi Roy Keane að leikmenn liðsins þurfi spark í afturendann.

Man United vann heldur dramatískan sigur í 8-liða úrslitum þar sem liðið var marki undir þangað til það fékk vítaspyrnu þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Í sömu andrá var tveimur leikmönnum Fulham vikið af velli sem og þjálfara liðsins.

Roy Keane vann nærri allt sem hægt var að vinna með félaginu er hann var fyrirliði þess í kringum aldamót. Í dag er hann sparkspekingur og liggur ekki á skoðunum sínum.

„Ég hef misst smá trúnna á því að horfa á Man United núna að undanförnu. Fyrir einum til tveimur mánuðum fannst mér leikmennirnir vera klárir í það sem koma skildi en í undanförnum leikjum hef ég séð gamla slæma ávana,“ sagði Keane eftir leikinn á Old Trafford í gær, sunnudag.

„Það er allt í lagi að spila augnablikið endrum og eins en núna finnst mér eins og það sé í erfðaefni [e. DNA] þeirra. Þeir hafa leyft gömlum, slæmum, ávönum að koma aftur.“

„Aðalatriðið í leikjum sem þessum er að komast áfram í næstu umferð. Ég held samt að Erik Ten Hag [þjálfari Man United] sé mjög svekktur með það sem hann sá. Auðvitað skemmdu leikmenn Fulham fyrir sjálfum sér en leikmenn Man Utd voru ótrúlega slakir. Stundum er betra að vera heppinn en góður, þeir hafa fundið leiðir í síðustu leikjum en Fulham var sinn versti óvinur í dag.“

„Þeir [leikmenn Man Utd] mættu til leiks og töldu sig þegar hafa unnið leikinn því þeir eru með hágæða leikmenn. Ef þeir mæta með sama hugarfar í undanúrslitin þá mun Brighton & Hove Albion vinna þá.“

„Þeir þurfa spark í afturendann,“ sagði Keane að endingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.