Stórutjarnaskóli er í Ljósavatnsskarði og er samrekinn leik- grunn- og tónlistarskóli með um 40 nemendur frá eins árs til 16 ára aldurs. Skólinn er Grænfánaskóli og Heilsueflandiskóli. Nú er verið að undirbúa á fullum krafti umhverfis- og lýðheilsuþing í skólanum, sem fer fram þriðjudaginn 21. mars þar sem nemendur, foreldrar og aðrir gestir sitja þingið og hlusta á fróðleg erindi.
Birna Davíðsdóttir er skólastjóri skólans.
„Núna er áherslan á landgræðslu og svo sóun en það verður kynnt könnun frá krökkunum en þau gerðu úttekt á fataeign og hversu mikið þau nota af fötunum sínum og hvað verður um fötin. Og svo ætla þau líka að segja frá uppgræðsluverkefni, sem þau tóku þátt í þegar skriðurnar féllu í Björgum út í Útkinn, það er búið að koma á uppgræðsluverkefni þar,” segir Birna.
En talandi um fötin, hver er niðurstaða krakkanna í því máli?
„Niðurstaðan er sú að við eigum allt of mikið af fötum og kannski þyrftum við að eiga minna og nota meira það sem við eigum, það er ansi mikið af fötum til í fataskápunum okkar.”

Stórutjarnaskóli er þátttakandi í Erasmus verkefni um stærðfræði og vísindi og á von á nokkrum erlendum gestum í heimsókn vegna verkefnisins.

„Reyndin er að erlendir skólar í þessum Erasmus verkefnum vilja helst hafa íslenska skóla með sér þar sem Ísland er mjög áhugavert land. Við erum að fá ellefu erlenda gesti frá Eistlandi, Ítalíu og Frakklandi til okkar síðustu vikuna í mars og þeir verða hér og fylgjast með starfinu okkar og svo förum við með þau út í sveitirnar,” segir Birna Davíðsdóttir, skólastjóri Stórutjarnaskóla í Þingeyjarsveit.
