Fótbolti

„Ekki það sem við vildum en það sem við fengum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp þurfti að játa sig sigraðan.
Klopp þurfti að játa sig sigraðan. Jose Breton/Getty Images

Það var ekki bjart yfir Jürgen Klopp, þjálfara Liverpool, þegar hann mætti í viðtal eftir 1-0 tap sinna manna á Santiago Bernabéu-vellinum í Madríd. Eftir að hafa tapað 5-2 á heimavelli í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu var brekkan brött fyrir drengina frá Bítlaborginni.

„Að vera 5-2 er augljóslega ekki frábært ef þú ætlar þér að komast áfram. Þú þarft að eiga einstaka frammistöðu og við gátum það ekki í kvöld. Real Madríd fékk betri færi og Alisson varði í tvígang meistaralega,“ sagði Klopp eftir leik.

„Rétta liðið fór áfram, við verðum að viðurkenna það. Útsláttarkeppnir eru svona, þetta er ekki það sem við vildum en það sem við fengum.“

„Þú þarft augnablik í leikjum sem þessum, hefðum við skorað í fyrri hálfleik hefði það mögulega kveikt einhvern neista. Þetta er þó allt bara ef og hefði. Þeir voru betra liðið í þremur hálfleikjum einvígisins og það er þannig sem þú kemst áfram,“ bætti Klopp við en Liverpool komst í 2-0 á Anfield áður en liðið tapaði 2-5.

„Ef við hefðum náð í jafntefli á heimavelli og hefðum svo spilað eins og við gerðum í kvöld þá hefðum við líklega einnig fallið úr leik. Við getum ekki komið hingað og vonast til að fá eitthvað. Við undirbjuggum okkur fyrir einstaka frammistöðu en það gerðist ekki.“

Real Madríd er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu ásamt Napolí, Chelsea, Manchester City, Inter Milan, AC Milan, Bayern München og Benfica.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×