Benzema skoraði og Real fór örugg­lega í átta liða úr­slit Meistara­deildar Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Karim Benzema skoraði eina mark kvöldsins.
Karim Benzema skoraði eina mark kvöldsins. Denis Doyle/Getty Images

Evrópumeistarar Real Madríd unnu 1-0 sigur á Liverpool í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Real vann fyrri leik liðanna á Anfield 5-2 og var því í góðum málum fyrir leik kvöldsins.

Í gær var greint frá því að Liverpool yrði án fyrirliða síns, Jordan Henderson, sem og Stefan Bajčetić í leik kvöldsins. Fyrir var Thiago Alcântara á meiðsalistanum. Jürgen Klopp ákvað því að breyta til og stilla upp í 4-2-3-1 leikkerfi með þá James Milner og Fabinho saman á bakvið Mohamed Salah, Cody Gakpo og Diogo Jota. Darwin Núñez var svo fremsti maður. 

Þrátt fyrir sóknarþenkjandi byrjunarlið gestanna þá voru það heimamenn sem fengu betri færi í upphafi leiks. Alisson varði meistaralega af stuttu færi frá Vinícius Júnior og þá varði hann langskot Eduardo Camavinga meistaralega í slánna. Einnig átti Luka Modrić gott skot sem fór rétt yfir markið.

Á hinum enda vallarins fékk Núñez tvö fín færi í fyrri hálfleik en í bæði skiptin sá Thibaut Courtois við honum. Staðan því markalaus þegar flautað var til hálfleiks þrátt fyrir fín færi á báða bóga. 

Síðari hálfleikur var ekki alveg jafn opinn en þegar tíu mínútur lifðu leiks braut Karim Benzema ísinn og kom Real Madríd í 1-0. Brasilíumaðurinn Vini Jr. renndi boltanum þá fyrir markið eftir að Benzema hafði misst boltann frá sér er hann sneri Virgil Van Dijk af sér. 

Van Dijk virtist lítið nenna að vinna boltann og leyfði Vini Jr. að gefa fyrir markið þar sem Benzema var einn á auðum sjó og gat ekki annað en skorað. Undir lok leiks vildu leikmenn Real fá vítaspyrnu, dómari leiksins fór í skjáinn en ákvað á endanum að dæma ekki þó boltinn hafi farið í hendina á Konstantinos Tsimikas innan vítateigs.

Lokatölur í kvöld 1-0 og Real vinnur rimmuna 6-2 samanlagt. Evrópumeistararnir eru þar af leiðandi komnir áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu ásamt Napoli, Chelsea, Manchester City, Inter Milan, AC Milan, Bayern München og Benfica.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.