Erlent

„Hvert einasta kyssti á mér rassinn“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bók Trump er sögð innihalda 150 bréf frá þekktum einstaklingum.
Bók Trump er sögð innihalda 150 bréf frá þekktum einstaklingum.

Ný bók sem inniheldur bréf sem þjóðhöfðingjar og aðrir þekktir einstaklingar sendu Donald Trump áður eða eftir að hann varð forseti, mun sýna fram á að allir „kysstu á honum rassinn“, eins og hann komst að orði í samtali við Breitbart News í gær.

Letters to Trump, eða Bréf til Trump, er safn um 150 bréfa frá einstaklingum á borð við Elísabetu II Bretlandsdrottningu, Díönu prinsessu, Opruh Winfrey, Hillary Clinton, Richard Nixon og Ronald Reagan.

„Ég held að þau muni afhjúpa afar áhugavert líf,“ sagði Trump um bréfin. „Ég þekkti þau öll og hvert einasta kyssti á mér rassinn. En nú kyssir aðeins helmingur á mér rassinn,“ bætti hann við, smekklegur að vanda.

Donald Trump Jr., sonur forsetans fyrrverandi, sagði föður sinn hafa átt í bréfasamskiptum við sumt af áhugaverðasta fólki heims en það hefði verið ótrúlegt hversu aðdáun þeirra á honum hefði horfið fljótt eftir að hann bauð sig fram sem Repúblikani.

„Í Letters to Trump sést nákvæmlega hvað þeim þótti um hann og hversu fölsk nýtilkomin vanþóknun þeirra er,“ sagði Jr.

Trump deildi bréfi með Breitbart frá John F Kennedy Jr., syni Kennedy forseta, sem var útgefandi þegar hann reit bréfið. Þakkaði hann Trump fyrir að hafa heimsótt sig á skrifstofu sinni „til að ræða stjórnmál, New York, menn og konur“.

Samkvæmt Axios er einnig að finna bréf í bókinni frá Opruh Winfrey, þar sem fjölmiðlakonan segir miður að þau tvö séu ekki í framboði saman. „Hvílíkt teymi!“ ku hún segja í bréfinu, frá 2000.

„Því miður talaði hún aldrei aftur við mig eftir að ég tilkynnti um framboð mitt til forseta árið 2015,“ segir Trump í bókinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×