Erlent

Játa að hafa orðið tólf ára stúlkunni að bana

Máni Snær Þorláksson skrifar
Blóm og kerti hafa verið lögð niður í nágrenni við þar sem lík Luise fannst.
Blóm og kerti hafa verið lögð niður í nágrenni við þar sem lík Luise fannst. Getty/Roberto Pfeil

Tvær stúlkur, tólf og þrettán ára gamlar, játuðu að hafa orðið annarri tólf ára stúlku að bana í bænum Freudenberg í vesturhluta Þýskalands. Tilkynnt var um hvarf stúlkunnar síðastliðinn laugardag og fannst hún svo látin síðdegis daginn eftir.

Stúlkan sem fannst látin heitir Luise en foreldrar hennar höfðu fyrst samband við lögregluna um klukkan 19:45 á laugardaginn. Luise hafði lagt af stað heim frá vini sínum fyrr um daginn en ekkert hafði spurst til hennar í nokkurn tíma.

Ákveðið var að hefja leit að Luise en leitin bar ekki árangur um kvöldið á laugardeginum. Daginn eftir fannst lík hennar í grennd við gömul göng. Krufning leiddi í ljós að hún hafði verið stungin nokkrum sinnum með hníf og að hún hafi látist í kjölfar þess. Engin merki voru um að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi. 

Lík Luise fannst í nágrenni við þessi göng.Getty/Roberto Pfeil

Játuðu morðið en verða ekki sóttar til saka

Þýskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að tvær stelpur á svipuðum aldri og Luise væru grunaðar um morðið. Lögreglan staðfesti það svo á blaðamannafundi að tólf og þrettán ára stelpurnar væru grunaðar. Samkvæmt Bild játuðu stelpurnar morðið í yfirheyrslu og sönnunargögn styðja við þeirra frásögn.

Þar sem sakhæfisaldur er fjórtán ára í Þýskalandi verða stelpurnar tvær ekki sóttar til saka. Viðeigandi yfirvöld munu taka við þeim og sjá um næstu skref.

Aðstoðarlögreglustjóri orðlaus

Það sem vekur athygli í málinu er að lík Luise fannst ekki á leið hennar heim til sín heldur í um tveggja kílómetra fjarlægð í hina áttina frá húsi vinar hennar. Lögreglan vildi ekki veita upplýsingar um ástæðuna fyrir þessu á blaðamannafundinum.

Þá kom fram á fundinum að lögreglan væri ekki ennþá búin að finna morðvopnið.

Jürgen Süs, aðstoðarlögreglustjóri í Koblenz, segir að þetta mál hafi komið honum í opna skjöldu þrátt fyrir að hann hafi starfað í lögreglunni í rúma fjóra áratugi. Hann sé orðlaus.

Sem stendur sé lögreglan ekki að leita að neinum öðrum í tengslum við málið en að sé leitað sönnunargagna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×