Fótbolti

Krossbandið slapp og Katrín snýr fljótt aftur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir gekk til liðs við Breiðablik eftir síðasta tímabil.
Katrín Ásbjörnsdóttir gekk til liðs við Breiðablik eftir síðasta tímabil. Breiðablik

Betur fór en á horfðist þegar knattspyrnukonan Katrín Ásbjörndóttir meiddist á hné í leik með Breiðablik gegn Stjörnunni í Lengjubikar kvenna síðastliðinn föstudag.

Katrín fór meidd af velli stuttu fyrir hálfleik og óttast var að þessi öflugi framherji hefði slitið krossbönd. Katrín fór hins vegar í segulómun í dag og greindi frá því á Instagram-síðu sinni að meiðslin væru ekki eins alvarleg og óttast hafði verið.

„Takk fyrir hlýjar kveðjur síðustu daga,“ ritar Katrín.

„Hefði ekki getað fengið betri niðurstöðu. Krossbönd heil og aðeins tognað liðband og smá beinmar.“

„Áfram gakk, verð mætt fersk á völlinn í sumar.“

Katrín verður því mætt til leiks á ný eftir fjórar til sex vikur í stað þess að allt næsta tímabil sé farið. Katrín gekk til liðs við Breiðablik frá Stjörnunni eftir síðasta tímabil og má búast við því að hún verði í stóru hlutverki í liði Blika í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×