Fótbolti

Sveindís kom inn af bekknum í öruggum sigri Wolfsburg

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sveindís spilaði í tæpar tuttugu mínútur í dag.
Sveindís spilaði í tæpar tuttugu mínútur í dag. Vísir/Getty

Sveindís Jane Jónsdóttir kom inná sem varamaður hjá Wolfsburg þegar liðið vann öruggan sigur á Leverkusen í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Wolfsburg á í harðri toppbaráttu við Bayern Munchen í þýsku deildinni og stefnir í að slagur Íslendingaliðanna um titilinn verði æsispennandi allt til enda.

Wolfsburg mætti í dag Leverkusen á útivelli en fyrir leikinn var liðið einu stigi á eftir Bayern í töflunni en Leverkusen var í sjötta sætinu.

Það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda í dag. Wolfsburg komst í 2-0 með mörkum frá Alexandra Popp á 13. og 16. mínútu leiksins en staðan í hálfleik var 2-0.

Í síðari hálfleik bætti Jule Brand við marki fyrir Wolfsburg á 66. mínútu en Sveindís Jane kom inn sem varamaður á 71. mínútu. Wolfsburg skoraði fjórða markið á 78. mínútu áður en Leverkusen minnkaði muninn undir lokin.

Með sigrinum lyftir Wolfsburg sér upp í efsta sæti deildarinnar. Liðið er með 39 stig en Bayern Munchen, lið Glódísar Perlu Viggósdóttur, Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur, er í öðru sæti tveimur stigum á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×