Innlent

„Það er ekkert hlustað“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga.
Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga. Vísir/Egill

Bæjarstjóri Voga er ekki bjartsýnn á að hlustað verði á sjónarmið sveitarfélagsins varðandi lagningu Suðurnesjalínu tvö. Hann átti fund með innviðarráðherra í dag um málið. 

Ferlið við að koma á annarri flutnings­leið raf­orku á Suður­nesin hefur verið í gangi í um tvo ára­tugi. Það hefur verið langt og strembið og hefur strandað á afstöðu Voga til línunnar. Öll hin sveitar­fé­lögin sem koma að málinu, Reykja­nes­bær, Grinda­vík og Hafnar­fjörður hafa þegar veitt Lands­neti fram­kvæmda­leyfi fyrir lagningu Suður­ne­sja­línu 2.

Gjörbreyttar forsendur

Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Voga, segir forsendur fyrir lagningu línunnar hafa gjörbreyst í kjölfar eldsumbrotahrinu á Reykjanesi. 

„Það eru afdráttarlausar ábendingar frá jarðvísindamönnum að það sé ekki skynsamlegt, með tilliti til afhendingar og öryggis raforku, að leggja aðra línu á sömu lagnaleið og sú eldri. Enda komi til eldsumbrota er ljóst að ekki bara önnur línan fari heldur mun hin hljóta sömu örlög,“ segir Gunnar Axel í samtali við Vísi. 

Gunnar Axel átti fund með Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra í dag þar sem Suðurnesjalína 2 var til umræðu. Gunnar Axel segir ástæðu fundarins hafa veirð sú að ráðherra fengi fyrrgreindar upplýsingar vísindamanna milliliðalaust frá sveitarfélaginu. 

Ekki hlustað á ábendingar vísindamanna

 „Í rauninni var engin niðurstaða á þessum fundi. Hann [Sigurður Ingi] er auðvitað búinn að gefa það út að málið sé ekki á hans borði. 

Sigurður Ingi fundaði með Gunnari Axel í dag.Vísir/Vilhelm

Málefni Landsnets eru á borði umhverfisráðuneytis en Gunnar Axel segir að í ljósi frumvarps Sigurðar Inga um breytingar á raforkuflutningi sé málefnið á borði beggja ráðherra.

Hann segist þó ekki bjartsýnn á að hlustað verði á sjónarmið sveitarfélagsins.

„Miðað við hvernig umræðan er þá er ég ekki bjartýnn á að Landsnet muni skipta um skoðun. Landsnet hefur verið mjög ákveðið með að fara sína leið, allt frá upphafi, og hefur aldrei hlustað á sjónarmið hlutaðeigandi sveitarfélaga. Að því leytinu kemur mér ekkert á óvart ef Landsnet hlusti ekki heldur á ábendingar vísindamanna,“ segir Gunnar Axel.

„Þetta kjarnar málið. Það er ekkert hlustað“


Tengdar fréttir

Tími til að tengja?

Í rúm 17 ár hefur staðið til að bæta afhendingaröryggi raforku á Reykjanesi með lagningu Suðurnesjalínu 2. Allt frá fyrsta degi hafa hlutaðeigandi sveitarfélög lagt áherslu á að nýjar háspennulínur verði lagðar í jörð enda óumdeilt að sú leið feli í sér minnst áhrif á landslag og ásýnd svæðisins. SvæðisAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.