Fótbolti

Talið að Bayern vilji tví­eyki frá Chelsea og bak­vörð Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kærustuparið Magda Eriksson og Pernille Harder gætu verið á leið til Þýskalands.
Kærustuparið Magda Eriksson og Pernille Harder gætu verið á leið til Þýskalands. Naomi Baker/Getty Images

Bayern München virðist ætla að styrkja sig talsvert í sumar. Talið er að félagið sé á höttunum á eftir Pernille Harder og Mögdu Eriksson hjá Chelsea. Ona Battle, bakvörður Manchester United, er einnig á óskalistanum.

Þessi vistaskipti munu án efa vekja athygli þar sem hin þrítuga Harder fór frá Wolfsburg til Chelsea fyrir metfé árið 2020. Hún skrifaði undir þriggja ára samning við félagið en sá samningur rennur út í sumar. Harder, sem er af mörgum talin ein besta knattspyrnukona sem Danmörk hefur alið, er í sambandi með Mögdu Eriksson, sænskri landsliðskonu.

Sú er einnig samningslaus í sumar og virðist Bayern vilja fá þær báðar í sínar raðir. Saman hafa þær unnið fjölda titla með Chelsea og gæti farið svo að þær sameini krafta sína í Þýskalandi á næstu leiktíð.

Þó Bayern sé á höttunum á eftir öflugum leikmönnum þá virðist félagið ekki vilja eyða of miklu í leikmenn í sumar. Ásamt Chelsea-tvíeykinu er hin 23 ára gamla Ona Batlle, hægri bakvörður Man United, einnig orðuð við Bayern. 

Sú hefur ekki skrifað undir nýjan samning í Manchester-borg þó svo að Man Utd sé í bullandi titilbaráttu. Talið er að hún vilji vita hvort Man Utd verði í Meistaradeild Evrópu á næstu Evrópu þegar hún skrifar undir nýjan samning.

Sem stendur eru þrjár íslenskar landsliðskonur á mála hjá Bayern. Koma þessara þriggja mun ekki hafa mikil áhrif á stöðu markvarðarins Cecilíu Rán Rúnarsdóttur. Þær Glódís Perla Viggósdóttir og Eriksson spila hins vegar sömu stöðu á meðan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Harder spila báðar framarlega á vellinum.

Bayern er sem stendur í 2. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Wolfsburg. Þá er liðið komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem það mætir Arsenal og í undanúrslit þýska bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×