Fótbolti

Albert minnir landsliðsþjálfarann á sig með því að raða inn mörkum í Seríu B

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson fagnar einu af mörkum sínum fyrir Genoa liðið.
Albert Guðmundsson fagnar einu af mörkum sínum fyrir Genoa liðið. Getty/Simone Arveda

Albert Guðmundsson var enn á ný á skotskónum með ítalska félaginu Genoa í Seríu B í gærkvöldi.

Albert skoraði og gaf stoðsendingu í 4-0 sigri Genoa á Cosenza. Þetta var þriðja mark Albert í síðustu fimm deildarleikjum og fimmta mark hans frá því að deildin fór aftur af stað eftir HM-frí.

Albert lagði upp fyrsta mark Genoa á 33. mínútu og kom liði sínu síðan í 2-0 á 57. mínútu.

Genoa liðið hefur líka unnið alla fimm leikina þar sem Albert hefur verið á skotskónum frá því í desember síðastliðnum.

Ósátti á milli Alberts og Arnars Þórs Viðarssonar urðu til þess að Albert hefur ekki verið í landsliðinu síðan síðasta haust.

Arnar Þór sagði á blaðamannafundi að hann hefði verið óánægður með hugarfar Alberts um sumarið en hann væri velkominn aftur þegar hann væri tilbúinn að vera hluti af liðsheildinni.

Arnar hefur hins vegar ekki valið hann síðar en það er ekki eins og íslenska landsliðið hafi efni á því að nota ekki leikmann sem er sjóðandi heitur í ítölsku b-deildinni. Það eru fáir íslenskir leikmenn að spila á hærra stigi í dag.

Íslenski landsliðshópurinn verður valinn á dögunum en framundan eru leikir við Bosnía-Hersegóvínu og Liechtenstein í undankeppni EM 23. og 26. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×