Fótbolti

Sandra hlóð í þrennu gegn Íslandsmeisturunum | Blikar völtuðu yfir Aftureldingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sandra María Jessen skoraði þrennu fyrir KA/Þór í kvöld.
Sandra María Jessen skoraði þrennu fyrir KA/Þór í kvöld.

Sandra María Jessen skoraði þrennu fyrir Þór/KA er liðið gerði sér lítið fyrir og vann 4-3 sigur gegn Íslandsmeisturum Vals í A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu í kvöld. Þá skoraði Birta Georgsdóttir einnig þrennu fyrir Breiðablik sem vann vægast sagt öruggan sigur gegn Aftureldingu, lokatölur 7-0.

Sandra María Jessen skoraði fyrsstu tvö mörk leiksins fyrir KA/Þór gegn Val áður en Bryndís Arna Níelsdóttir minnkaði muninn eftir hálftíma leik. Amalía Árnadóttir endurheimti þó tveggja marka forystu norðankvenna mínútu síðar áður en Sandra María fullkomnaði þrennuna tíu mínútum fyrir hálfleik.

Krista Dís Kristinsdóttir varð svo fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 73. mínútu og staðan orðin 4-2, KA/Þór í vil. Ásdís Karen Halldórsdóttir minnkaði muninn enn frekar á 85. mínútu, en nær komust Valskonur ekki og niðurstaðan varð 4-3 sigur KA/Þórs.

Þá léku Blikar á alls oddi er liðið tók á mót Aftureldingu. Birta Georgsdóttir skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og þær Andrea Rut Bjarnadóttir, Katrín Ásbjörnsdóttir, Agla María Albertsdóttir og Taylor Marie Ziemer skoruðu einnig eitt mark hver áður en hálfleikurinn var úti. 

Birta Georgsdóttir fullkomnaði svo þrennu sína snemma í síðari hálfleik og þar við sat. Lokatölur 7-0, Breiðablik í vil.

Að lokum vann Tindastóll öruggan 3-0 útisigur gegn ÍBV og Þróttur R. vann einnig öruggan 2-0 sigur gegn Selfyssingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×