Enski boltinn

Vilja að stuðnings­menn liða sinna hætti níð­söngvum um München, Hillsbor­ough og Hey­sel

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir vilja að stuðningsmenn liða sinna einbeiti sér að styðja við liðin frekar en að syngja níðsöngva.
Þessir tveir vilja að stuðningsmenn liða sinna einbeiti sér að styðja við liðin frekar en að syngja níðsöngva. Michael Regan/Getty Images

Liverpool og Manchester United mætast á morgun, sunnudag, í ensku úrvalsdeildinni. Stjórar liðanna, Jürgen Klopp og Erik ten Hag, hafa biðlað til stuðningsfólks liðanna að hætta níðsöngvum sem snúa að harmleik félaganna.

Árið 1958 fórst stór meirihluti liðs Man United í flugslysi í München þegar flugvél félagsins fór ekki á loft. Alls létust 23 í slysinu. Árið 1985 létust 39 einstaklingar á Heysel-leikvanginum í Brussel þegar Liverpool mætti Juventus. Fjórum árum síðar létust 97 stuðningsmenn Liverpool á Hillsborough-leikvanginum í Sheffield þar sem Liverpool og Nottingham Forest mættust.

Stuðningsfólk beggja liða rifjar þessa harmleiki upp að því virðist í hvert skipti sem liðin mætast. Nú hafa þjálfarar liðanna beðið stuðningsfólk sitt um sleppa níðsöngvunum og viðhalda mögnuðu andrúmslofti með því að styðja við bakið á sínu liði.

„Söngvar sem þessir eiga ekkert skylt við fótbolta. Það er betra fyrir alla ef við getum haldið ástríðunni en sleppt eitrinu,“ sagði Klopp í aðdraganda leiksins.

„Rígurinn á milli Man United og Liverpool er einn sá stærsti í heimi. Við elskum ástríðuna í áhorfendum þegar lið okkar mætast en það eru línur sem má ekki fara yfir. Það er óásættanlegt að nýta dauðsföll og aðra harmleiki til að „skora stig“ og nú er kominn tími til að stoppi,“ sagði Ten Hag um málið.

„Þeir sem gera slíkt setja ekki aðeins blett á orðspor félaganna heldur skemma þeir fyrir sjálfum sér, öðrum áhorfendum og borgunum tveimur. Fyrir hönd allra hjá félaginu þá biðjum við stuðningsfólk okkar um að einbeita sér að því að styðja við bakið á liðinu á sunnudag,“ sagði Ten Hag að lokum.

Leikur liðanna á Anfield hefst klukkan 16.30 á morgun, sunnudag. Sem stendur er Manchester United í 3. sæti deildarinnar með 49 stig á meðan Liverpool er í 6. sæti með 39 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×