Enski boltinn

Pirraður á að vera ekki valinn í lands­liðið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekki sáttur.
Ekki sáttur. Eddie Keogh/Getty Images

Brasilíumaðurinn Gabriel Magalhães, miðvörður Arsenal, var vægast sagt ósáttur með að vera ekki valinn í brasilíska landsliðshópinn á dögunum. Grínaðist hann með að vera orðinn körfuboltamaður á samfélagsmiðlum áður en hann eyddi færslunni.

Hinn 25 ára gamli Gabriel hefur ekki enn leikið A-landsleik en hefur verið í fantaformi það sem af er leiktíð. Arsenal trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og Gabriel hefur myndað frábært miðvarðarpar með William Saliba.

Ramon Menezes, þjálfari Brasilíu, valdi á dögunum 23 leikmenn sem mæta Marokkó í vináttuleik síðar í þessum mánuði. Þar á meðal voru níu leikmenn sem hafa ekki leikið A-landsleik. Þeir eru:

  • Andrey Santos [Chelsea]
  • Andre [Fluminense]
  • Arthur Augusto [America Mineiro]
  • João Gomes [Wolverhampton]
  • Vitor Roque [Paranaense]
  • Mycael [Paranaense]
  • Robert Renan [Zenit Saint Pétursborg]
  • Raphael Veiga [Palmeiras]
  • Rony [Palmeiras]

Ekki var pláss fyrir miðvörðinn Gabriel sem brást við með því að setja inn færslu á Twitter-síðu sinni þar sem hann sagðist vera farinn að spila körfubolta. Hann eyddi færslunni stuttu síðan en veraldarvefurinn gleymir engu.

Stuðningsfólk Arsenal gæti fagnað að Gabriel fái nokkra daga í hvíld undir lok mánaðarins þar sem liðið er enn í harðri baráttu við Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×