Innlent

Hlutfall innflytjenda af starfandi hefur fjórfaldast

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Samkvæmt staðgreiðslugögnum hefur hlutfall starfandi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði fjórfaldast frá árinu 2003, úr 5,1 prósent af öllum starfandi í 20,6 prósent árið 2022.
Samkvæmt staðgreiðslugögnum hefur hlutfall starfandi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði fjórfaldast frá árinu 2003, úr 5,1 prósent af öllum starfandi í 20,6 prósent árið 2022. Vísir/Vilhelm

Árið 2022 voru að jafnaði um 217.600 manns á vinnumarkaði samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn. Af þeim voru rúmlega 209.400 starfandi og um 8.100 án vinnu og í atvinnuleit.

Þetta kemur fram í úttekt Hagstofunnar.

Atvinnuþátttaka mældist 80,1 prósent, hlutfall starfandi af mannfjölda 77,1 prósent og atvinnuleysi var 3,7 prósent.

Atvinnulausum fækkaði um rúm 4.300 frá árinu 2021 og atvinnuleysið dróst saman um 2,2 prósentustig á milli ára.

Atvinnuleysi á meðal kvenna var 3,4 prósent að jafnaði og á meðal karla var það 4 prósent. Árið 2022 var atvinnuleysi að jafnaði 4,3 prósent í Reykjavík, 3,6 prósent í nágrenni Reykjavíkur og 3,4 prósent utan höfuðborgarsvæðisins.

Áætlað er að af öllum starfandi hafi konur verið að jafnaði um 97.100 allt árið 2022 og karlar um 112.400.

Ekki var nægjanlegur fjöldi í úrtaki vinnumarkaðsrannsóknar til að greina frekar fjölda kynsegin/annað en samkvæmt talningu úr staðgreiðslugögnum voru 55 kynsegin eða annað samkvæmt þjóðskrá starfandi að jafnaði árið 2022.

Heildarvinnustundir þeirra sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni voru að meðaltali 36,5 klukkustundir á viku árið 2022. Heildarvinnustundir kvenna á viku voru 32,6 klukkustundir og karla 39,7 klukkustundir.

Mikil fjölgun á meðal háskólamenntaðra

Fólk utan höfuðborgarsvæðisins vinnur að jafnaði fleiri vinnustundir á viku en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Meðalfjöldi vinnustunda fólks í Reykjavík árið 2022 var 34,9 klukkustundir, hjá íbúum nágrennis Reykjavíkur voru stundirnar að jafnaði 35,7 en íbúar utan höfuðborgarsvæðisins unnu að jafnaði 38,5 klukkustundir.

Þegar þróun menntunar og starfandi er skoðuð yfir 20 ára tímabil má meðal annars sjá að háskólamenntuðum á vinnumarkaði hefur fjölgað mjög eða úr 24,2 prósent í 39,7 prósent allra starfandi á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn.

Á sama tíma hefur hlutfall þeirra sem aðeins hafa lokið grunnmenntun dregist verulega saman. Hlutur þeirra sem hafa lokið starfs- og/eða framhaldsmenntun að einhverju leyti hefur staðið í stað.

Samkvæmt staðgreiðslugögnum hefur hlutfall starfandi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði fjórfaldast frá árinu 2003, úr 5,1 prósent af öllum starfandi í 20,6 prósent árið 2022. Innflytjandi er einstaklingur með lögheimili á Íslandi sem er fæddur erlendis og á foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×