Fótbolti

Messi og Put­ellas valin best

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessi þekkja fátt annað en að lyfta verðlaunagripum.
Þessi þekkja fátt annað en að lyfta verðlaunagripum. Marcio Machado//Getty Images

Lionel Messi og Alexia Putellas voru í kvöld valin bestu leikmenn ársins 2022 af Alþjóða knattspyrnusambandinu FIFA. Verðlaunaafhendingin fór fram í París. Var fjöldinn allur af verðlaunum veittur í kvöld.

Messi, leikmaður Paris Saint-Germain og heimsmeistari með Argentínu, var valinn bestur í karlaflokki. Er þetta í annað sinn sem Messi hlýtur verðlaunin. Hann varð Frakklandsmeistari með PSG síðasta vor og svo heimsmeistari undir lok síðasta árs.

Alexia Putellas, leikmaður Barcelona og spænska landsliðsins, var valin best í kvennaflokki. Er þetta einnig í annað sinn sem hún hlýtur verðlaunin. Það vekur athygli að hin 29 ára Putellas spilaði aðeins helming ársins 2022 þar sem hún sleit krossband í hné áður en leikar hófust á Evrópumóti kvenna sem fram fór í Englandi síðasta sumar.

Putellas átti stóran þátt í frábæru gengi Börsunga sem enduðu með fullt hús stiga í spænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, urðu bikarmeistarar en lutu í gras fyrir Lyon í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Hún hefur ekki enn spilað á yfirstandandi leiktíð.

Önnur verðlaun voru eftirfarandi:

  • Besti markvörður [karla]: Emiliano Martinez, Argentína og Aston Villa
  • Besti markvörður [kvenna]: Mary Earps, England og Manchester United
  • Þjálfari ársins [karla]: Lionel Scaloni, Argentína
  • Þjálfari ársins [kvenna]: Sarina Wiegman, England
  • Puskas-verðlaunin: Marcin Oleksy
  • Háttvísisverðlaun FIFA: Luka Lochoshvili
  • Stuðningsfólk ársins: Argentína

Þá voru lið ársins valin og sjá má þau hér að neðan. Athygli vakti að markverðir ársins voru ekki í liðum ársins, bæði í karla- og kvennaflokki.

Athygli vakti að Acharf Hakimi, bakvörður Marokkó og París Saint-Germain, var á verðlaunaafhendingunni en fyrr í kvöld bárust fréttir þess efnis að kona í París hefði kært hann fyrir nauðgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×