Erlent

Á fjórða tug fórst í skipsskaða við Ítalíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjöldi fólks sem reynir að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhaf ferst á leiðinni á hverju ári. Myndin er frá Crotone á austurströnd Ítalíu eftir skipsskaða í október og er úr safni.
Fjöldi fólks sem reynir að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhaf ferst á leiðinni á hverju ári. Myndin er frá Crotone á austurströnd Ítalíu eftir skipsskaða í október og er úr safni. Vísir/Getty

Að minnsta kosti þrjátíu og þrír fórust þegar skip með föru- og flóttafólki fórst undan suðausturströnd Ítalíu. Nær öruggt er talið að tala látinna eigi eftir að hækka.

Tuttugu og sjö líkum skolaði upp í fjöru í sumarleyfisstaðnum Steccato di Cutro í Kalabríu í morgun. Fleiri lík sáust á reki í sjónum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Slökkvilið segir að skip flóttafólksins hafi strandað við strandlengjuna. Ítalskir fréttamiðlar segja að um hundrað manns hafi verið um borð. Ungbarn og nokkur börn séu á meðal þeirra látnu. Um fjörutíu manns virðist hafa komist lífs af. Flóttafólkið er sagt vera frá Íran, Pakistan og Afganistan. Slæmt var í sjóinn og skipið var sagt hafa steytt á klettum.

Fjöldi fólks reynir að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhafið á hverju ári og tekur oft fyrst land í Ítalíu. Sjóleiðin er sögð eins sú hættulegasta í heimi. Alþjóðaflóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (IOM) áætlar að um 20.333 manns hafi farist eða sé saknað í Miðjarðarhafinu frá árinu 2014.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×