Fótbolti

Árni til litháísku meistaranna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Árni Vilhjálmsson í leik með Breiðabliki í Sambandsdeildinni í hitteðfyrra.
Árni Vilhjálmsson í leik með Breiðabliki í Sambandsdeildinni í hitteðfyrra. vísir/hulda margrét

Íslenski fótboltamaðurinn Árni Vilhjálmsson hefur samið við meistaraliðið í Litáen, Zalgaris. Samningur Árna við liðið gildir út þetta ár.

Zalgaris er frá höfuðborginni Vilníus. Liðið varð meistari í þriðja árið í röð í fyrra og í tíunda sinn alls. Ekkert lið hefur unnið litháísku deildina oftar. Zalgaris vann einnig bikarkeppnina í fyrra.

Árni, sem er 28 ára, hefur komið víða við á ferlinum. Auk þess að spila með Breiðabliki og Haukum hér á landi hefur hann leikið í Úkraínu, Svíþjóð, Noregi, Póllandi og síðast í Frakklandi. Þar spilaði hann með Rodez í B-deildinni.

Árni lék síðast með Breiðabliki sumarið 2021. Þá skoraði hann ellefu mörk í 21 leik í Pepsi Max-deildinni. Hann hefur alls leikið 94 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað fjörutíu mörk.

Zalgaris komst í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar á síðasta tímabili. Liðið lenti í 4. sæti H-riðils með fimm stig.

Litáíska deildin hefst 3. mars. Tíu lið eru í henni og leikin er fjórföld umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×