Innlent

Leggja til að virkja endur­skoðunar­á­kvæði sam­göngu­sátt­málans

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Marta Guðjónsdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Marta Guðjónsdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að endurskoðunarákvæði samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði virkjað verður lögð fyrir fund borgarstjórnar á morgun, 21. febrúar.

„Nú hafa bæjarstjórar stærstu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu stigið fram og lýst vilja sínum til endurskoðunar sáttmálans, enda er áætlunargerð í uppnámi og margvíslegar forsendur brostnar hvað varðar fjármögnun,“ segir Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem jafnframt flytur tillöguna á morgun.

Tillagan felur í sér að óskað verði eftir viðræðum um að ákvæði samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, frá 26. september 2019, verði endurskoðuð. Litið verði sérstaklega til framkvæmda- og fjárstreymisáætlunar í því samhengi, en tillagan er lögð fram með það fyrir augum að tryggja farsæla framvindu og framkvæmd nauðsynlegra samgöngubóta í Reykjavík.

„Um helgina voru mörkuð ákveðin tímamót þegar formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, Vilhjálmur Árnason, kvaðst ætla að beita sér fyrir endurskoðun sáttmálans innan nefndarinnar. Stuðningur við endurskoðun sáttmálans er því víðtækur á sveitarstjórnarstiginu sem og inn á Alþingi,¨ segir Marta enn fremur.

„Nú hefur orðið ljóst að tæpum fjórum árum eftir undirritun sáttmálans er engri þeirra framkvæmda sem aðilar gerðust ásáttir um að flýta, lokið. Sem dæmi mætti nefna gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, tengingu Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut og stafræna umferðarljósastýringu. Jafnframt hefur framkvæmda- og fjárstreymisáætlun ekki staðist og t.d. farið langt umfram verðbættar áætlanir hvað varðar Sæbrautarstokk,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Jafnframt segir í greinargerð að óvissa sé með fjármögnun og rekstraráætlun.

„Enn hefur ekki verið lögð fram rekstraráætlun eða skýrar rekstrarforsendur fyrir Borgarlínu. Mikilvægt er að hvoru tveggja liggi fyrir áður en lengra er haldið með fjárfestinguna.“

Fundur borgarstjórnar á morgun hefst klukkan 12.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×