Erlent

Telja að biskup hafi verið myrtur í Los Angeles

Kjartan Kjartansson skrifar
David O'Connell var gerður aðstoðarbiskup í Los Angeles-erkibiskupsdæmi árið 2015. Hann fannst látinn af völdum skotsárs á laugardag.
David O'Connell var gerður aðstoðarbiskup í Los Angeles-erkibiskupsdæmi árið 2015. Hann fannst látinn af völdum skotsárs á laugardag. AP/Julio Cortez

Lögreglan í Los Angeles-sýslu rannsakar lát kaþólsks biskups á laugardag sem morð. Biskupinn var skotinn til bana á heimili sínu og byssumaðurinn eða mennirnir ganga enn lausir.

David O'Connell var 69 ára gamall, fæddur á Írlandi, og var prestur í 45 ár. Frans páfi skipaði hann einn aðstoðarbiskupa Los Angeles-erkibiskupsdæmis, þess stærsta í Bandaríkjunum, árið 2015.

Hann helgaði sig sérstaklega baráttu gegn glæpagengjum og er sagður hafa tekið þátt í að róa öldurnar á milli íbúa í Los Angeles og lögreglu eftir að fjórir hvítir lögregluþjónar voru sýknaðir af ákæru um að ganga í skrokk á Rodney King árið 1992. Sýknan leiddi til mikill uppþota í borginni.

Biskupinn fannst látinn af völdum skotsárs í úthverfi um þrjátíu kílómetra austur af miðborg Los Angeles um klukkan 13:00 á laugardag. AP-fréttastofan segir að lögregla vilja hvorki segja hvernig eða hvar lík hans fannst. Fréttarit erkibiskupsdæmisins fullyrti þó að O'Connell hefði fundist látinn á heimili sínu, að sögn Washington Post.

Lögregla hefur heldur ekki sagt hvort að hún telji að O'Connell hafi verið skotmark árásarinnar eða hvort að trú hans hafi tengst henni á einhvern hátt. Tveir gyðingar voru nýlega skotnir og særðir vegna trúar þeirra í Los Angeles.

José H. Gomez, erkibiskup Los Angeles, lýsti O'Connell sem friðarstilli sem fann til með fátækum og innflytjendum. Eric Garcetti, fyrrvearndi borgarstjóri Los Angeles, sagði O'Connell vin sinn til margra ára.

„Borgin hefur misst einn af fallegustu englum sínum,“ tísti Garcetti í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×