Erlent

Fá ekki að mæta á verð­launa­af­hendingu vegna ógnar við al­menning

Árni Sæberg skrifar
Christo Grozev á frumsýningu heimildarmyndarinnar Navalny.
Christo Grozev á frumsýningu heimildarmyndarinnar Navalny. Rob Kim/Getty

Rússneskum fréttamanni og fjölskyldu hans hefur verið meina að mæta á afhendingarathöfn Bafta verðlaunanna. Lögregluyfirvöld í Bretlandi telja að almenningi myndi stafa ógn af mætingu hans þar sem hann er eftirlýstur af yfirvöldum í Rússlandi. Hann hefur unnið til verðlauna fyrir umfjöllun sína um Alexei Navalní.

Heimildarmyndin Navalny er tilnefnd til Bafta verðlauna í flokki heimilda. Christo Grozev, fréttamaður sem fjallað hefur mikið um Alexei Navalní og baráttu hans við rússnesk stjórnvöld, er áberandi í heimildarmyndinni. Grozev sagði á Twitter á föstudag að honum og fjölskyldu hans hefði verið meinað að mæta á verðlaunaafhendingu Bafta.

Hann segir skipuleggjendur atburðarins hafa sagt að viðvera fjölskyldunnar myndi vera ógn við almenning. Það segir Grozev hafa komið sér á óvart og að hann skilji ekki hvernig börnin hans geta verið ógn við almenning.

Þá segir hann mætingarbannið vera alvarlega aðför að frelsi blaðamanna.

Flúði Austurríki fyrir skömmu

Grozev hefur ekki bakað sér miklar vinsældir stjórnvalda í Kreml með umfjöllun sinni um Navalní og fleiri rússneska andófsmenn. Hann fjallaði meðal annars ítarlega um eitranir með taugaeitrinu Novichok árið 2018.

Hann tilkynnti í janúar að hann hefði neyðst til að flýja heimili sitt í Austurríki eftir að hafa fengið fjölda viðvarana frá stjórnvöldum um að hann væri í hættu. Hann býr núna ásamt fjölskyldu sinni í Bandaríkjunum, að því er segir í umfjöllun New York Times um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×