Enski boltinn

„Farið að líta út eins og það Liver­pool sem við erum vanir“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir komu að fyrra marki Liverpool á St. James´s Park í gær, laugardag.
Þessir tveir komu að fyrra marki Liverpool á St. James´s Park í gær, laugardag. EPA-EFE/Peter Powell

„Þetta var rosalega mikilvægt, þetta var stór sigur. Náðum í sigur gegn Everton, það var líka stór sigur fyrir okkur en hefði ekki þýtt neitt hefðum við ekki komið hingað og unnið,“ sagði Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörður Liverpool, um sigur sinna manna á Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool heimsótti Newcastle í síðasta leik ensku úrvalsdeildarinnar í gær, laugardag. Eftir að hafa unnið Everton í síðustu umferð þá vann Liverpool góðan sigur í Norður-Englandi gegn liði sem hefur verið nær ósigrandi að undanförnu.

„Þeir eru lið sem erfitt er að vinna en við tókum þá í sundur. Rauða spjaldið róaði leikinn. Það eru ekki mörg lið sem koma hingað og vinna svo við erum hæstánægðir með að taka stigin þrjú heim,“ sagði Trent eftir leik en Nick Pope, markvörður Newcastle, var rekinn af velli í stöðunni 0-2.

„Andrúmsloftið hérna er frábært og því mikilvægt fyrir okkur að ná inn marki snemma til að róa taugarnar. Þetta var vel útfært, höfum unnið í þessu á æfingasvæðinu. Þetta var frábært hlaup frá Darwin Núñez og frábær afgreiðsla,“ sagði Trent um fyrra mark Liverpool en hægri bakvörðurinn lagði það upp.

„Við höfum ekki haft mikið sjálfstraust á þessari leiktíð. Við höfum spilað vel hér og þar en það hefur ekki verið neinn stöðugleiki til þessa. Við erum vanir að vinna marga leiki í röð, við vitum hvernig á að setja saman sigurleiki. Þetta er farið að líta út eins og það Liverpool sem við erum vanir.“

„Lítum út eins og lið sem getur unnið fjölda leikja frá þessum tímapunkti og þangað til tímabilinu lýkur,“ sagði Trent að endingu.

Liverpool er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 35 stig að loknum 22 leikjum, sex stigum minna en Newcastle sem er í 4. sæti eftir að hafa leikið leik meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×