Innlent

Kalla eftir upplýsingum um hvernig leiguverð í smáhýsum er ákveðið

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir þau halda ótrauð áfram í tengslum við húsnæði fyrst stefnu en séu alltaf að reyna að gera betur. 
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir þau halda ótrauð áfram í tengslum við húsnæði fyrst stefnu en séu alltaf að reyna að gera betur.  Vísir/Egill

Formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir þau hafa kallað eftir upplýsingum frá Félagsbústöðum um leiguverð í smáhýsum fyrir heimilislausa sem bæði íbúar og fulltrúi stjórnarandstöðunnar segja of hátt. Húsnæðisstuðningur komi þó upp á móti og oft greiði fólk ekki meira en 50 þúsund á mánuði. Ýmislegt er til skoðunar og gert er ráð fyrir að auka þurfi stuðning almennt. 

Fréttastofa ræddi um helgina við íbúa sem býr í einu af smáhýsum borgarinnar á Granda en hann sagði aðbúnað þar ekki góðan auk þess sem leiguverð væri hátt. Borgarfulltrúi Sósíalista sagði þá að þjónusta við íbúa væri langt frá því að vera viðundandi og undraðist hátt leiguverð, sem er hátt í 100 þúsund krónur eða um 3.900 krónur á fermetra.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Velferðarráðs borgarinnar, bendir á að það séu Félagsbústaðir sem ákveði leiguverð þar sem tillit er tekið til kostnaðar við húsnæði og viðhalds.

„Við höfum beðið um upplýsingar frá þeim hvernig þetta leiguverð er ákveðið en þó er mikilvægt að hafa í huga að fólk fær húsnæðisstuðning á móti þannig það er enginn að borga þarna fulla leigu,“ segir Heiða.

Húsnæðisstuðningur sé allt að 50 þúsund krónur og því íbúar margir hverjir að borga í mesta lagi 50 þúsund krónur á mánuði. Aðspurð um hvort að leigan sé yfir höfuð of há segist Heiða treysta Félagsbústöðum.

„Það er mjög há viðhaldskrafa á þessar íbúðir og ég geri ráð fyrir að þau hafi metið þetta og fengið þetta út þannig að það sé sanngjarnt. En við fáum bara upplýsingar um það og ef að okkur finnst það ekki, þá finnst mér alveg koma til greina að skoða það og beina til þeirra að lækka verðið ef okkur finnst það eitthvað óeðlilegt, en ég á ekki von á því,“ segir Heiða.

Hvað varðar annað mál sem íbúinn á Granda nefndi, að smáhýsin hafi verið án hita í vetur, segir Heiða að það hafi verið bilun í húshitunarbúnaði en að stokkið hafi verið til og komið með auka ofna áður en gert var við bilunina. 

„Ég harma það og skil að það hafi veri nöturlegt. Það er auðvitað eitthvað sem við myndum vilja að koma í veg fyrir að myndi gerast nokkurn tímann en gott að viðbrögðin hafi verið snögg,“ segir Heiða en hún bendir þar að auki á að smáhýsin á Granda séu eldri en þau sem nú er verið að setja upp og ekki mögulega ekki byggð með þarfir þessara einstaklinga í huga. 

Þurfa meiri aðstoð en gert var ráð fyrir í fyrstu

Að sögn Heiðu blasir ákveðið vandamál við en þó nokkuð er um það að fólk í þessum aðstæðum borgi ekki leigu. Einhverjir hafa misst húsnæði sitt fyrir að standa ekki skil á greiðslum en reynt sé eftir fremsta megni að koma í veg fyrir það. Reynslan hafi sýnt að fólk sé stundum ekki tilbúið til að eiga eigið heimili, sem geti verið áfall.

„Það sem við höfum séð er að fólk fer kannski stundum of snemma þarna inn, beint úr jafnvel neyðarskýli inn í húsnæði fyrst úrræði, og við erum í rauninni að draga þann lærdóm að það væri betra að hafa millistigs húsnæði þar sem við getum betur metið akkúrat hvaða stuðningsþarfir fólk hefur,“ segir Heiða.

Mögulega þurfi að auka sveigjanleika hjá Félagsbústöðum en gæta þurfi jafnræðis.

„Það hefur verið aðeins meiri slaki og við erum í þessari aðgerðaráætlun sem við erum að setja núna að reyna að setja það inn í einhverjar reglur hvernig við getum aðstoðað þau, líka bara við það að höndla það að eiga húsnæði, að eiga heimili, að setja mörk fyrir sitt heimili, að ákveða hver kemur inn og hver kemur ekki inn, og greiða reikninga og annað slíkt,“ segir Heiða.

Þegar hafi stuðningur verið aukinn mikið en málið sé stöðugt til skoðunar.

„Þau þurfa mikinn stuðning og það er í rauninni kannski einn af lærdómunum sem við höfum verið að draga, og erum þess vegna að setja svolítið inn þessi áfangaheimili sem millistig, að fólk þarf oft meiri stuðning þarna en við gerðum ráð fyrir og við munum þurfa að auka hann,“ segir Heiða.

Alltaf að reyna að gera betur

Í heildina hafa 20 smáhýsi verið keypt, að smáhýsunum að Granda undanskildum, og koma þau síðustu upp á næstunni, meðal annars í Laugardal. Þá er borgin einnig að kaupa íbúðir víða um borgina til að mæta þörfum heimilislausra.

„Við erum að reyna að dreifa búsetunni um borgina, af því að fólk kemur náttúrulega alls staðar af, og reyna að finna hentuga staði fyrir hvern og einn, að fólk geti verið nálægt sínum ættingjum og vinum eða í umhverfi sem það þekkir eða kýs og nálægt þeirri aðstöðu eða þjónustu sem það þarf. Þannig að við erum bara brött og ætlum að halda áfram en við erum alltaf að reyna að gera betur,“ segir Heiða.

Hún vonar að Reykvíkingar taki vel á móti þessu fólki og veiti því aðgang að sínum samfélögum. 

„Við erum öll jafn mikilvæg og merkileg í borginni og borgin þarf að fúnkera þannig að við séum öll þátttakendur. Sumum þurfum við bara að sýna örlítið meira umburðarlyndi en öðrum en það er hluti af því að búa í borg og að búa í samfélagi,“ segir Heiða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×