Fótbolti

Sjáðu þrumuskalla Glódísar Perlu og mark Sveindísar um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir kemur á ferðinni og skömmu síðar hafði hún skallað boltann í markið og komið Bayern München í 1-0.
Glódís Perla Viggósdóttir kemur á ferðinni og skömmu síðar hafði hún skallað boltann í markið og komið Bayern München í 1-0. Getty/Mark Wieland

Landsliðskonurnar Glódís Perla Viggósdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir kom báðar á skotskónum til móts við íslenska landsliðið eftir að hafa skorað fyrir lið sín í þýsku deildinni um helgina.

Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir kom Bayern München á bragðið í sigri á Eintracht Frankfurt í þýsku Bundesligunni um helgina.

Glódís Perla kom Bayern liðinu í 1-0 á 25. mínútu með þrumuskalla eftir hornspyrnu frá Klöru Buhl frá vinstri.

Okkar kona mætti af krafti inn á teiginn og náði föstum skalla upp í þaknetið óverjandi fyrir varnarmenn eða markmann Frankfurt.

Það má sjá þetta mark hér fyrir neðan þar sem Bayern tók saman hápunkta leiksins en mark Glódísar kemur eftir eina mínútu og 36 sekúndur.'

Þetta var annað deildarmark Glódísar á tímabilinu en hún skoraði einnig á móti Freiburg í nóvember. Glódís skoraði þrjú deildarmörk allt síðasta tímabil og er því á góðri leið með að jafna það.

Næst á dagskrá er fyrsta landsliðsverkefni Glódísar síðan hún tók formlega við fyrirliðastöðunni af Söru Björk Gunnarsdóttur. Íslenska liðið er að fara að spila þrjá leiki á Pinatar æfingamótinu.

Sveindís Jane Jónsdóttir var líka á skotskónum í 3-0 sigri Wolfsburg á Essen á útivelli en það má sjá mark hennar hér fyrir neðan. Sveindís Jane skoraði annað mark Wolfsburg í leiknum.

Þetta var sjötta mark Sveindísar á leiktíðinni en þar af hefur hún skorað fjögur mörk í tólf leikjum í þýsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×