Lífið

Við­­brögð kepp­enda: Bjóst við því að Saga myndi vinna

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Vel fór á með Kjalari og Sögu Matthildi í kvöld.
Vel fór á með Kjalari og Sögu Matthildi í kvöld. Vísir/Vilhelm

Saga Matthildur sigurvegari Idolsins segist alls ekki hafa búist við sigri í Idolinu en Kjalar, sem keppti á móti henni á úrslitakvöldinu, var viss um að hún myndi bera sigur úr býtum. Bæði segjast þau ótrúlega þakklát.

Saga Matthildur vann Idolið eftir æsispennandi keppni á Stöð 2 í kvöld. Hún flutti lögin Iris, eftir Goo Goo Dolls, A Change Is Gonna Come og eftir Sam Cook.

Á móti henni keppti Kjalar, sem flutti lögin Hit Me Baby One More Time eftir Britney Spears og Háa C eftir Móses Hightower. Bæði fluttu þau lagið Leiðina heim, sem var frumsamið fyrir lokaþáttinn.

„Þetta er bara ótrúlegt“

Saga Matthildur segist alls ekki hafa búist við sigri.

„Þetta er bara ótrúlegt. Þetta var alltaf svona í bakgrunninum, að þetta gæti gerst, en svo kom það nær og nær. En ég veit það ekki,“ sagði hún klökk í samtali við fréttastofu í Idolhöllinni. 

Saga segir að draumurinn sé að hafa áhrif á annað fólk með tónlist; alveg eins og tónlistarmenn hafi haft áhrif á hana í gegnum tíðina. Hún segist ekki ætla að bíða með tónsmíðarnar fram yfir barnsburð en Saga greindi frá því í á nýársdag að hún ætti von á barni.

„Nú ætla ég að fara á fullt að vinna mér í haginn áður en að lífið fer alveg á hvolf. Lokamarkmiðið er að lifa á tónlist þannig að þá er eins gott að fara að spýta í lófana!“

Besti flutningur sem Kjalar hefur séð

Kjalar laut í lægra haldi í kvöld en segist hvergi nærri hættur.

„Mér líður svo vel. Ég er ekki búinn að vera með neitt annað en þakklæti í huganum. Í síðasta laginu gat ég eiginlega ekki hugsað um lagið sjálft, ég hugsaði bara um keppnina og ferlið. Ég samgleðst Sögu svo ótrúlega mikið, mér fannst hún eiga þetta hundrað prósent skilið. Ég bjóst við þessu í allt kvöld – að hún myndi vinna. Og ég er svo glaður með úrslit kvöldsins í rauninni.“

Hann kveðst aldrei hafa búist við því að komast í úrslitin og segist ganga glaður út í lífið eftir reynsluna.

„Eftir æfingar í vikunni bjóst ég alveg við því að Saga myndi vinna, því að A Change Is Gonna Come, þetta er örugglega bara besti flutningur á landinu sem ég hef séð,“ segir Kjalar um flutning Sögu Matthildar á laginu.

Kjalar tekur þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins sem hefst í febrúar: „Ég er mjög spenntur, þarf kannski aðeins að ná mér niður eftir þetta spennufall,“ segir hann og hlær.


Tengdar fréttir

Saga Matt­hildur vann Idolið

Saga Matthildur er Idol-stjarna Íslands. Hún keppti til úrslita í kvöld á móti Kjalari og bar sigur úr býtum.  

Vaktin: Saga Matt­hildur bar sigur úr býtum

Spennan er orðin áþreifanleg. Úrslitakvöld Idol er nefnilega á Stöð 2 í kvöld. Tvö keppa til úrslita, þau Kjalar og Saga Matthildur, sem bæði hafa fangað hjörtu þjóðarinnar. Við fylgjumst auðvitað með úrslitakvöldinu og lýsum framvindunni í Vaktinni á Vísi.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.