Fótbolti

Ein sú besta í heimi gagn­rýnir að Sádi-Arabía sé mögu­legur styrktar­aðili HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alex Morgan á að baki 201 A-landsleik fyrir Bandaríkin.
Alex Morgan á að baki 201 A-landsleik fyrir Bandaríkin. EPA-EFE/Miguel Sierra

Alex Morgan, ein af þremur bestu knattspyrnukonu heimsins samkvæmt FIFA, hefur gagnrýnt mögulegan styrktarsamning milli heimsmeistaramóts kvenna og Sádi-Arabíu.

HM kvenna fer fram í Ástralíu og Nýja Sjálandi næsta sumar og gæti einn helsti styrktaraðili mótsins verið ferðamannaiðnaðurinn í Sádi-Arabíu. Það hefur ekki vakið mikla lukku og nú hefur hin 33 ára gamla Morgan stigið upp og sagt sína skoðun.

„Mér finnst undarlegt að FIFA hafi horft til „Visit Saudi“ þegar kemur að styrktaraðila. Ég væri ekki samþykkt og hvað þá stutt við mig í því landi. Nærri allir eru á móti þessu þar sem þetta meikar engan sens siðferðislega.“

Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International hafa talað um að ógeðsleg mannréttindabrot eigi sér stað í Sádi-Arabíu. Samkynhneigð er ekki lögleg í landinu og þá eru réttindi kvenna ekki í hávegum höfð.

„Sádi-Arabía gæti sett smá púður í kvennalandsliðið sitt sem var aðeins stofnað fyrir örfáum árum. Það er ekki hluti af heimslista FIFA því það hefur spilað svo fáa leiki. Það væri mitt ráð til þeirra. Og ég vona að FIFA geri það rétta í stöðunni,“ bætti Morgan við.

FIFA hefur ekki tjáð sig um málið en það hefur bandaríska knattspyrnusambandið gert.

„Bandarískur fótbolti styður mannréttindi, jafnrétti og trúir því að afl íþrótta geti haft jákvæð áhrif. Þó við getum ekki stýrt öðrum samböndum eða styrktaraðilum stórmóta sem við tökum þátt í þá getum við lýst yfir áhyggjum okkar,“ sagði bandaríska sambandið við The Athletic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×