Innlent

Póst­beri vekur at­hygli fyrir hjálp­semi í Vestur­bæ

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Lorenz þekkja margir í Vesturbænum.
Lorenz þekkja margir í Vesturbænum. Vísir/Sigurjón

Póstberinn Lorenz hefur vakið athygli fyrir hjálpsemi í Vesturbænum en hann hefur til viðbótar við póstburð aðstoðað fólk við að komast til vinnu í snjóþunganum. Lorenz segir að fólk mætti vera duglegra að hjálpa náunganum. 

„Pósturinn í Vesturbænum er einstaklega hjálpsamur. Hjálpaði fullorðinni konu að skafa bílinn.“ Svona hljóðar færsla sem birt var í Facebook hópi Vesturbæjarins og taka margir íbúar undir, ein segir hann hafa hjálpað sér að losa bílinn þegar hann var pikkfastur í snjónum.

Maðurinn er Lorenz Julian Bunnert og hefur starfað sem póstberi í tvö ár - og reynir að hjálpa öllum sem á vegi hans verða.

„Já það kemur nú fyrir. Sérstaklega yfir vetrartímann - að maður hjálpi fólki að koma sér í vinnuna og svo hjálpar fólk mér þegar maður festist,“ segir Lorenz.

„Góður dagur til að hjálpa“

Geturðu komið með dæmi? Hvað hefur þú verið að gera? 

„Í gær til dæmis þá var góður dagur til að hjálpa. Ég skóf bílinn fyrir gamla konu og svo var önnur kona föst í bílnum. Bíllinn sat í snjónum en við náðum honum út nokkrir saman. Þetta er skemmtilegt yfir vetrartímann, að vera í svona samvinnu.“

Já einstakt hugarfar. Lorenz ber aðallega út póst í Vesturbænum þar sem hann hefur kynnst nokkrum íbúum í gegnum starfið.

„Og nokkrum hundum. Það er til dæmis einn hundur sem kemur alltaf út þegar hann sér póstinn og tekur bréfin í munninn og hleypur inn.“

Rómantískt starf

Starfið segir hann gefandi og skemmtilegt enda einkennist það af útiveru og samskiptum við fólk.

„Já þetta er rómantískt á ákveðinn hátt.“

Hvað segir fólk við þig, er það þakklátt? 

„Já fólk er vanalega mjög þakklátt. Það kemur líka til baka til manns og manni líður vel eftir á þegar maður getur hjálpað.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×