Fótbolti

Íslensku stelpurnar fögnuðu eins og Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísabella Sara Tryggvadóttir og Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir fögnuðu sigurmarkinu saman.
Ísabella Sara Tryggvadóttir og Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir fögnuðu sigurmarkinu saman. Skjámynd/KSÍ - Knattspyrnusamband Íslands

Íslenska sautján ára landsliðið tryggði sér sigur á æfingamóti í Portúgal á dögunum.

Íslensku stelpurnar gulltryggðu efsta sætið með 2-1 sigur á Finnlandi í lokaleik sínum en þær enduðu með stigi meira en þær finnsku.

Sigdís Eva Bárðardóttir og Ísabella Sara Tryggvadóttir skoruðu mörk íslenska liðsins.

Íslenska liðið gerði markalaust jafntefli við Portúgal í fyrsta leik en vann síðan 2-0 sigur á Slóvakíu í öðrum leiknum.

Finnar unnu tvo fyrstu leiki sína og nægði því jafntefli á móti Íslandi. Íslensku stelpurnar sótti sigurinn undir lok leiksins og unnu því mótið.

Sigdís Eva, sem spilar með Víkingi Reykjavík, skoraði markið sitt með óverjandi þrumuskoti í stöngina og inn. Markið kom á 72. mínútu leiksins.

Ísabella Sara, sem spilar með KR, skoraði síðan sigurmarkið á annarri mínútu í uppbótatíma. Ísabella setti þá boltann inn á fjærstönginni eftir sendingu frá Blikanum Margréti Brynju Kristinsdóttur.

Ísabella Sara og Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir fögnuðu síðan markinu saman eins og Cristiano Ronaldo.

Það má sjá mörkin og fagnaðarlætin hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×