Erlent

Alræmdur málaliðaforingi skotinn í höfuðið á stuttu færi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mangushev hélt því fram að hann hefði fengið hugmyndina að því að nota Z sem tákn fyrir Rússa í Úkraínu.
Mangushev hélt því fram að hann hefði fengið hugmyndina að því að nota Z sem tákn fyrir Rússa í Úkraínu.

Hinn alræmdi herforingi og málaliði Igor Mangushev er látinn eftir að hafa verið skotinn í höfuðið af stuttu færi við varðstöð í Kadiivka. Eiginkona hans segir um aftöku að ræða og ýjað hefur verið að því að yfirmaður Wagner-hópsins hafi fyrirskipað morðið.

Mangushev fór fyrir hersveit í Luhansk sem hafði það verkefni að skjóta niður dróna. Áður hafði hann verið meðal stofnenda málamiðlahóps sem barðist gegn Úkraínuher árið 2014, sama ár og Rússar hernámu Krímskaga.

Málaliðaforinginn komst í fréttirnar í ágúst í fyrra þegar hann birtist á myndskeiði á samfélagsmiðlum þar sem hann hélt á höfuðkúpu manns á sviði, sem hann sagði hafa verið meðal þeirra Úkraínumanna sem vörðust í Azovstal-stálverksmiðjunni í Maríupól.

Mangushev sagði Rússa ekki í stríði við fólk heldur vegna hugmyndarinnar um Úkraínu sem ríki á móti Rússlandi. Þá skipti engu máli hversu margir Úkraínumenn féllu í átökunum.

Vitað er að Mangushev starfaði um tíma við hlið Yevgeny Prigozhin, stofnanda Wagner-málaliðahópsins, sem pólitískur ráðgjafi. Annar öfga þjóðernissinni, Pavel Gubarev, segir alla vita hver ber ábyrgð á dauða Mangushev og bendir í þessu samhengi á að ekkert hafi heyrst frá Prigozhin.

BBC hefur eftir Mark Galeotti, sérfræðingi í málefnum Rússlands, að morðið á Mangushev sé til marks um að landið sé að hverfa aftur til aðferðafræði 10. áratugar síðustu aldar, þegar „morð voru viðskiptataktík og línurnar á milli stjórnmála, viðskipta, glæpa og stríðsátaka voru næstum merkingarlaus“.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×