Fótbolti

HM gæti snúið aftur til Úrúgvæ hundrað árum eftir að fyrsta mótið fór þar fram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Centario völlurinn í Úrúgvæ þar sem fyrsta heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór fram árið 1930.
Centario völlurinn í Úrúgvæ þar sem fyrsta heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór fram árið 1930. Carlos Lebrato/Anadolu Agency via Getty Images

Heimsmeistaramót karla í fótbolta gæti farið að hluta til fram í Úrúgvæ árið 2030, hundrað árum eftir að fyrsta heimsmeistaramótið í sögunni fór þar fram.

Suður-Am­er­íkuþjóðirn­ar Úrúg­væ, Argentína, Síle og Parag­væ hafa form­lega sótt í sam­ein­ingu um að halda heims­meist­ara­mót karla í knatt­spyrnu árið 2030. Fái þjóðirnar að halda mótið yrði það sögulegt að því leytinu til að fyrsta heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór einmitt fram í Úrúgvæ árið 1930 og gæti því mótið verið að snúa aftur á sama stað hundrað árum síðar.

Úrúgvæ og Argentína hófu viðræður um að sækja um að halda mótið árið 2017, en Paragvæ og Síle bættust svo við í kjölfarið.

Þrjár af þessum fjórum þjóðum hafa áður haldið HM í fótbolta, en Argentína hélt mótið árið 1978, Síle 1962 og Úrúgvæ sem áður segir 1930.

Umsókn Úrúgvæ, Argentínu, Paragvæ og Síle er fyrsta formlega umsóknin sem berst fyrir HM 2030. Þó er nokkuð ljóst að þjóðirnar muni fá mikla samkeppni um að halda HM 2030, en nú þegar liggur fyrir að Marokkó ætlar að gera enn eina tilraun til að hreppa mótið. Verður það í sjötta sinn sem Marókkó sækir um að halda heimsmeistaramót í fótbolta, en þjóðin sótti einnig um að halda mótið árin 1994, 1998, 2006, 2010 og 2026.

Þá hafa Evr­ópuþjóðirn­ar Spánn, Portúgal og Úkraína einnig staðfest að þær muni sækja um keppn­ina í sam­ein­ingu. Fleiri þjóðir hafa einnig sýnt mótinu áhuga, en þar mað meðal annars nefna Túnis, Alsír og sameiginlegt boð Egypta­lands, Grikk­lands og Sádi-Ar­ab­íu en þá færi keppn­in fram í þrem­ur heims­álf­um.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.