Suður-Ameríkuþjóðirnar Úrúgvæ, Argentína, Síle og Paragvæ hafa formlega sótt í sameiningu um að halda heimsmeistaramót karla í knattspyrnu árið 2030. Fái þjóðirnar að halda mótið yrði það sögulegt að því leytinu til að fyrsta heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór einmitt fram í Úrúgvæ árið 1930 og gæti því mótið verið að snúa aftur á sama stað hundrað árum síðar.
Úrúgvæ og Argentína hófu viðræður um að sækja um að halda mótið árið 2017, en Paragvæ og Síle bættust svo við í kjölfarið.
Þrjár af þessum fjórum þjóðum hafa áður haldið HM í fótbolta, en Argentína hélt mótið árið 1978, Síle 1962 og Úrúgvæ sem áður segir 1930.
Argentina, Uruguay, Chile, and Paraguay have officially launched their bid to stage the 2030 World Cup 🌎
— ESPN FC (@ESPNFC) February 7, 2023
The tournament would be going back to its roots in Uruguay, the home of the very first World Cup back in 1930. pic.twitter.com/MElbbokejg
Umsókn Úrúgvæ, Argentínu, Paragvæ og Síle er fyrsta formlega umsóknin sem berst fyrir HM 2030. Þó er nokkuð ljóst að þjóðirnar muni fá mikla samkeppni um að halda HM 2030, en nú þegar liggur fyrir að Marokkó ætlar að gera enn eina tilraun til að hreppa mótið. Verður það í sjötta sinn sem Marókkó sækir um að halda heimsmeistaramót í fótbolta, en þjóðin sótti einnig um að halda mótið árin 1994, 1998, 2006, 2010 og 2026.
Þá hafa Evrópuþjóðirnar Spánn, Portúgal og Úkraína einnig staðfest að þær muni sækja um keppnina í sameiningu. Fleiri þjóðir hafa einnig sýnt mótinu áhuga, en þar mað meðal annars nefna Túnis, Alsír og sameiginlegt boð Egyptalands, Grikklands og Sádi-Arabíu en þá færi keppnin fram í þremur heimsálfum.