Erlent

Bjargað úr sjávarháska á stolinni snekkju

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá skjáskot úr myndbandi Strandgæslunnar sem sýnir sundmanninn rétt hjá bátnum áður en aldan skall á honum.
Hér má sjá skjáskot úr myndbandi Strandgæslunnar sem sýnir sundmanninn rétt hjá bátnum áður en aldan skall á honum. AP/Strandgæsla Bandaríkjanna

Starfsmenn Strandgæslu Bandaríkjanna björguðu á föstudaginn manni úr sjávarháska undan ströndum Oregon-ríkis. Maðurinn var um borð í snekkju sem hann hafði stolið fyrr um daginn.

Hann var þó handtekinn eftir að hann var fluttur aftur á þurrt land og í ljós kom að hann var eftirlýstur. Maðurinn, sem heitir Jericho Wolf Labonte og er 35 ára gamall, var eftirlýstur fyrir að hafa skilið fisk eftir á palli húss sem birtist í kvikmyndinni Goonies frá 1985.

Hann er grunaður um þjófnað, bátaþjófnað og um að ógna öryggi annarra. Labonte var einnig eftirlýstur í Kanada fyrir aðra glæpi, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Aðdraganda björgunarinnar og handtökunnar má rekja til miðvikudagsins í síðustu viku. Þá var lögreglan í Astoria í Oregon, látin vita af því að Labonte hefði skilið eftir dauðan fisk á palli áðurnefnds húss, sem var nýverið selt til aðdáanda myndarinnar Goonies. Labonte birti einnig myndband af sér dansa á pallinum en hann var þar í leyfisleysi.

AP segir einnig að Labonte hafi í kjölfarið stolið snekkju í Astoria og var það snekkjan sem honum var bjargað úr á föstudaginn. Eftir að áhöfn þyrlu Strandgæslunnar flutti Labonte í land á föstudaginn, fannst hann í athvarfi fyrir heimilislausa í öðrum bæ, skammt frá Astoria. Þar hafði hann komið sér fyrir undir dulnefni.

„Þetta voru undarlegir tveir sólarhringar,“ hefur AP eftir Stacey Kelly, lögreglustjóra Astoria, þar sem Labonte var handtekinn.

Myndband af því þegar Labonte var bjargað á föstudaginn má sjá hér að neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×