Innlent

Héraðsdómur segir Eflingu að afhenda sáttasemjara félagatalið

Atli Ísleifsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir og Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður Eflingar, fara yfir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.
Sólveig Anna Jónsdóttir og Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður Eflingar, fara yfir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Vísir/Egill

Ríkissáttasemjari á að fá félagatal Eflingar afhent til að hægt sé að greiða atkvæði um miðlunartillögu hans í kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur sem úrskurðaði í málinu á öðrum tímanum.

Efling neitaði að afhenda ríkissáttasemjari félagatalið, en fyrir lá að ef niðurstaða yrði á þessa leið myndi Efling kæra málið til Landsréttar. 

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í samtali við fréttastofu, eftir að niðurstaðan lá fyrir að þetta væri „rangur og ósanngjarn“ úrskurður. Hún segist augljóslega vera verulega ósátt við þetta en henni sé þó ekki brugðið.

Hún segist hafa þá trú að réttlæti finnist í þessu landi. Hún hafi ekki fundið það í héraðsdómi í dag.

Sjá má viðtal við Sólveigu Önnu eftir að niðurstaða lá fyrir, í spilaranum að neðan. 

Niðurstöðu Félagsdóms beðið

Félagsdómur mun síðar í dag, klukkan 14:30, úrskurða um lögmæti verkfallsboðunar Eflingarfólks sem starfar hjá Íslandshótelum. Að öllu óbreyttu hefst verkfallið á hádegi á morgun, þriðjudag.

Samtök atvinnulífsins telja að verkfallið standist ekki lög og að ekki megi hefja verkfallsaðgerðir fyrr en félagsfólk Eflingar hefur í atkvæðagreiðslu fellt eða samþykkt miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Þessu hefur forsvarsfólk Eflingar hafnað.

Efling fór fram á að réttaráhrifum í málinu yrði frestað á meðan kæruferli stæði. Á það féllst héraðsdómur ekki.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Í beinni: Dómstólar kveða upp dóma sína í kjaradeilunni

Von er á því að bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Félagsdómur komist að niðurstöðu varðandi það annars vegar hvort Efling þurfi að afhenda sáttasemjara félagatal sitt og hins vegar hvort boðað verkfall tæplega þrjú hundruð félagsmanna Eflingar á morgun standist lög.

Mun á­frýja áður en hún af­hendir

Ætla má að tíðindi muni berast á morgun í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins en óhætt er að segja að deilan sé í hnút.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×