Fótbolti

Guðný og Sara spiluðu báðar þegar Milan vann Juventus

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sara kom inn sem varamaður hjá Juventus í dag.
Sara kom inn sem varamaður hjá Juventus í dag.

AC Milan vann góðan sigur á Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Guðný Árnadóttir lék allan leikinn í vörn Milan sem vann 2-1 sigur en Sara Björk Gunnarsdóttir kom inn af bekknum hjá Juventus.

Fyrir leikinn í dag var Juventus að elta Roma í toppbaráttu deildarinnar en Roma vann 1-0 sigur á Como í morgun og jók þá forystu sína á toppnum í átta stig.

Það var því mikilvægur leikur Juventus og AC Milan ef Juventus ætlaði ekki að missa Roma of langt fram úr sér. Guðný Árnadóttir byrjaði leikinn í hægri bakvarðarstöðunni hjá Milan en Sara Björk Gunnarsdóttir var á varamannabekk Juventus.

Staðan var markalaus lengst af í fyrri hálfleik en undir lok hálfleiksins fékk AC Milan hins vegar vítaspyrnu og Lisa Boattin, varnarmaður Juventus, var rekin af leikvelli. Martina Piemonte skoraði úr vítaspyrnunni og staðan orðin erfið hjá Juventus.

Í síðari hálfleik bætti Milan síðan við. Lindsey Thomas skoraði á 75.mínútu og mínútu síðar kom Sara Björk inn af bekknum hjá Juventus. Hún náði sér í gult spjald fimm mínútum síðar en náði ekki að setja mark sitt á leikinn að öðru leyti.

Juventus tókst á klóra í bakkinn alveg undir lokin þegar hin sænska Linda Sembrant skoraði eftir sendingu Arianna Caruso. Lokatölur í leiknum 2-1 fyrir Milan sem situr í 5.sæti deildarinnar. Juventus er áfram í öðru sætinu, átta stigum á eftir Roma en jafnt Fiorentina í þriðja sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×