Fótbolti

Mark frá Sveindísi þegar Wolfsburg vann

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sveindís Jane skoraði eitt marka Wolfsburg í dag.
Sveindís Jane skoraði eitt marka Wolfsburg í dag. Vísir/Getty

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði eitt marka Wolfsburg í 4-0 sigri liðsins á Freiburg í dag. Wolfsburg heldur enn góðri forystu á toppi deildarinnar.

Sveindís Jane var í byrjunarliði Wolfsburg í dag sem var með fimm stiga forskot á toppnum áður en leikurinn hófst. Freiburg var í fjórða sætinu fyrir leikinn, ellefu stigum á eftir Wolfsburg.

Það var var alveg ljóst að leikmenn Wolfsburg ætluðu ekki að láta neinn minnka þann mun niður í dag því þær byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru komnar í 2-0 strax á fyrstu tíu mínútunum.

Ewa Pajor kom þeim í 1-0 strax á 4.mínútu og Alexandra Popp skoraði annað mark leiksins á 9.mínútu.

Rétt undir lok fyrri hálfleiks skoraði svo Sveindís Jane þriðja mark Wolfsburg eftir sendingu frá Pajor.

Síðari hálfleikurinn var svo gott sem formsatriði fyrir toppliðið. Freiburg tókst ekki að minnka muninn en Lena Lattwein skoraði fjórða mark Wolfsburg á 87.mínútu og innsiglaði 4-0 sigur.

Wolfsburg er nú með átta stiga forskot á Bayern Munchen á toppi deildarinnar en Bayern, sem Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir leika með, eiga leik á morgun gegn Turbine Potsdam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×