Innlent

Ár í fangelsi fyrir að hafa í­trekað berað sig fyrir börnum

Árni Sæberg skrifar
Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur að öllu leyti.
Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur að öllu leyti. Stöð 2/Egill

Landsréttur staðfesti í dag eins árs óskilorðsbundinn fangelsisdóm yfir manni á áttræðisaldri. Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa ítrekað berað sig fyrir börnum á leikvelli fyrir framan heimili hans.

Brotin áttu sér stað yfir rúmlega árs tímabil en ákærða var gefið að sök að hafa berað sig í að minnsta kosti fimm skipti. Brotin beindust öll gegn ungum drengjum en sá yngsti var átta ára gamall. Í staðfestum niðurstöðum héraðsdóms segir að brotin hafi fengið verulega á börnin.

Maðurinn býr á jarðhæð í blokk í Rimahverfi í Grafarvogi og stofugluggi og svalahurð íbúðar mannsins snúa að nálægum leikvelli. Háttsemi mannsins er sambærileg í öllum ákæruliðum málsins en hann hefur þá staðið léttklæddur, nakinn eða íklæddur bol, ber að neðan og fróað sér.

Vísir hefur áður fjallað um manninn en hann hefur þrisvar sinnum áður verið dæmdur fyrir sams konar brot. Foreldrar í hverfinu segjast ráðþrota og leikvöllurinn við heimili mannsins hefur fengið viðurnefnið „Perraróló“.

Fóru fram á eina milljón króna

Í staðfestum dómi héraðsdóms segir að með hliðsjón af fjölda tilvika og ítrekuðum brotum mannsins hafi ekki þótt unnt að skilorðsbinda refsingu hans að nokkru leyti.

Foreldrar sex drengjanna sem maðurinn beraði sig fyrir fóru fram á eina milljón króna í miskabætur fyrir hönd drengjanna og foreldrar eins þeirra fóru fram á hálfa milljón króna.

Með vísan til forsendna héraðsdóms staðfesti Landsréttur dóm hans þess efnis um að manninum yrði gert að greiða drengjunum 250 þúsund hverjum utan eins sem honum var gert að greiða 350 þúsund krónur.

Í héraði var maðurinn dæmdur til að fimm sjöttu hluta sakarkostnaðar, málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans voru ákveðin 2,2 milljónir króna, þóknun skipaðra réttargæslumanna alls 2,7 milljónir króna og annar sakarkostnaður 480 þúsund krónur.

Landsréttur staðfesti það og dæmdi manninn auk þess til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins alls tæplega tvær milljónir króna. Þar af málsvarnarlaun verjanda síns, eina milljón króna og þóknun þriggja réttargæslumann, 300 þúsund krónur hverjum.


Tengdar fréttir

Árs fangelsi fyrir að hafa ítrekað berað sig fyrir framan börn

Karlmaður á áttræðisaldri var nýlega dæmdur í tólf mánaða fangelsi. Maðurinn hefur ítrekað berað sig fyrir framan börn á leiksvæði við heimili sitt í Grafarvogi. Ákærði hefur þrisvar sinnum áður verið dæmdur fyrir sams konar brot.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.