Cristian Tello kom heimamönnum í Al-Fateh í forystu strax á tólftu mínútu leiksins áður en Brasilíumaðurinn Anderson Talisca jafnaði metin fyrir Al-Nassr stuttu fyrir hálfleik.
Heimamenn tóku svo forystuna á ný þegar Sofiane Bendebka kom boltanum í netið eftir tæplega klukkutíma leik og lengi vel leit út fyrir að það yrði sigurmark leiksins.
Gestirnir í Al-Nassr fengu þó vítaspyrnu í uppbótartíma leiksins. Cristiano Ronaldo fór á punktinn og jafnaði metin fyrir liðið á ögurstundu. Niðurstaðan því 2-2 jafntefli og fyrsta deildarmark Ronaldos með nýju félagi í hús.
Al-Nassr trónir á toppi deildarinnar með 34 stig eftir 15 leiki, en Al-Fateh situr í sjötta sæti með 22 stig.