Fótbolti

Orri frá FCK að láni og lýst sem al­ræmdum marka­skorara

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Steinn Óskarsson klæðist búningi SönderjyskE fram á sumar.
Orri Steinn Óskarsson klæðist búningi SönderjyskE fram á sumar. soenderjyskefodbold.dk

Framherjinn ungi Orri Óskarsson er farinn að láni frá FC Kaupmannahöfn til SönderjyskE og mun því spila í dönsku 1. deildinni fram á sumar.

Orri, sem er 18 ára gamall, kom til FCK sumarið 2020 frá Gróttu og hefur til að mynda skorað 29 mörk í 25 leikjum með U19-liði félagsins. Á yfirstandandi leiktíð hefur hann svo spilað leiki með aðalliði FCK í dönsku úrvalsdeildinni, bikarkeppninni og sjálfri Meistaradeild Evrópu.

Esben Hansen, íþróttastjóri SönderjyskE, fagnar komu Orra og segir að komið verði fram við hann eins og hann sé gegnheill leikmaður félagsins, þó að aðeins sé um lánssamning að ræða.

„Við erum afskaplega glöð með að Orri skuli spila með SönderjyskE það sem eftir er leiktíðar. Það er enginn vafi um að Orri er alræmdur markaskorari sem hefur sýnt að hann kann að skora mörk,“ sagði Hansen á heimasíðu SönderjyskE.

Orri mætir til æfinga hjá sínu nýja liði á morgun og mun svo hjálpa til í baráttunni um að komast upp í úrvalsdeildina. SönderjyskE er í 6. sæti með 27 stig eftir 17 leiki, en aðeins sex stigum frá 2. sæti. Tvö efstu liðin, eftir 32 umferðir, komast upp í úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×