Fótbolti

Messi sér eftir því hvernig hann lét

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi lætur þá Edgar Davids og Louis van Gaal heyra það eftir leik Argentínu og Hollands í átta liða úrslitum HM í Katar.
Lionel Messi lætur þá Edgar Davids og Louis van Gaal heyra það eftir leik Argentínu og Hollands í átta liða úrslitum HM í Katar. Getty/Liu Lu

Lionel Messi viðurkennir að hann sjái eftir því hvernig hann lét í og eftir leik Argentínu og Hollands í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar í síðasta mánuði.

Messi átti magnað heimsmeistaramót þar sem hann vann langþráðan heimsmeistaratitil með Argentínu og var kosinn besti leikmaður mótsins.

Það munaði þó litlu að argentínska landsliðið færi ekki lengra en í átta liða úrslit eftir dramatískan leik á móti sterku hollensku liði í útsláttarkeppninni. Argentína missti niður 2-0 forystu en vann að lokum í vítakeppni.

Messi ræddi þennan leik í nýlegu viðtali og á sérstaklega eftirsjá sína vegna þess hvernig hann lét þetta kvöld.

Messi fagnaði marki sínu í leiknum með því að hlaupa fyrir framan hollenska þjálfarann Louis van Gaal og setja hendur sína upp að eyrunum. Messi hélt því fram eftir leikinn að Van Gaal hefði sýnt Argentínu virðingarleysi í viðtölum fyrir leikinn.

„Ég var ekki hrifinn af því sem ég gerði eða hvað gerðist eftir leikinn. Þetta eru taugatrekkjandi aðstæður og allt gerist mjög hratt,“ sagði Lionel Messi.

Messi sást síðan rífast við aðstoðarmann Van Gaal, Edgar Davids, í leikslok. Hann var enn funheitur í viðtölum eftir leik og kallaði meðal annars á Wout Weghorst, markaskorara Hollendinga: Hvað ert þú að horfa á vitleysingur. Farðu aftur til baka.

Allt saman endaði vel fyrir Messi sem fullkomnaði fullkominn fótboltaferil með heimsmeistaratitli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×