Innlent

SA stefna Eflingu fyrir Fé­lags­dóm

Atli Ísleifsson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Vísir/Vilhelm

Samtök atvinnulífsins ætla að höfða mál fyrir Félagsdómi gegn Eflingu eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar á Íslandshótelum urðu ljós í gærkvöldi.

Þetta kom fram í máli Halldórs Benjamíns Þorbergssonar í Bítinu á Bylgjunni skömmu fyrir klukkan átta. 

Starfsmenn Íslandshótela sem eru í Eflingu hafa samþykkt boðun um verkfallsaðgerðir, en rafrænni atkvæðagreiðslu sem hófst á hádegi síðastliðinn þriðjudag lauk í gærkvöldi. Verkfall hefst í næstu viku, þriðjudaginn 7. febrúar, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum að neðan.

„Algert reiðarslag“ fyrir forystu Eflingar

Halldór Benjamín segir að þessar niðurstöður, þar sem atkvæðagreiða beindist gegn hópi manna sem var sérvalinn af forystu Eflingar, hljóti að vera algert reiðarslag fyrir forystu Eflingar. 

„Innan við 43 prósent atkvæðabærra manna, sem voru um 287, eru að samþykkja verkfallið. Þriðjungur er á móti. Auðvitað getum við alltaf gert ráð fyrir að verkfall sem er hannað með þessum hætti, eða atkvæðagreiðsla um verkfall, yrði samþykkt. En mig óraði ekki fyrir því að það gæti verið með svo veikum hætti.“

Hvernig lest þú í spilin og hvað næst?

„Ég get því deilt því með ykkur að Samtök atvinnulífsins munu höfða mál í dag gegn Eflingu vegna ólögmæts verkfalls. Og við munum höfða það mál fyrir Félagsdómi og gera grein fyrir því væntanlega í kringum hádegisbil eða svo,“ segir Halldór Benjamín.

Er það mál sem tæki þá fljótt að leysa út?

„Félagsdómur hefur sýnt í fortíð að hann er snöggur til verka. Aðalatriðið hér er að það er enginn hafinn yfir lög. Það á líka við um Sólveigu Önnu Jónsdóttur hjá Eflingu.“

Ef þið vinnið þetta mál, hvaða áhrif hefur það?

„Þá mun það hafa þau áhrif að til þessa verkfalls mun ekki koma.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Vísir/Vilhelm

Þeir sem fara á svig við lög eiga ekki góðan málstað að verja

Halldór Benjamín segir að það verði líf og fjör á þessum vettvangi næstu daga. „Því get ég lofað ykkur. Og það verður ekki línuleg dagskrá. Það verða miklar vendingar á þessari leið.“

Hann segir okkur þó lifa í siðmenntuðu samfélagi. 

„Efling hefur lýst því yfir að þau muni ekki hlíta miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Munu ekki veita honum aðgang að atkvæðaskrá. Ég les í fréttum eins og þið að ríkissáttasemjara mun leita atbeina dómstóla að knýja á um það. En á endanum held ég að hver og einn Íslendingur þurfi að líta í spegil. Það er eitt sem við getum verið sammála um – að við búum í réttarríki og enginn er hafinn yfir lög. Þeir sem reyna að fara á svig við lögin hafa yfirleitt ekki góðan málstað að verja. Mér virðist sem að Efling sé í því hlutverki um þessar mundir,“ segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

66 prósent þátttaka

Verkfallsboðun Eflingar var samþykkt með 124 atkvæðum, 58 voru á móti og sjö tóku ekki afstöðu. Af þeim sem greiddu atkvæði voru því 65 prósent á því að fara í verkfall. Á kjörskrá voru 287 og af þeim greiddu 189 atkvæði. Kjörsóknin var því 66 prósent sem Efling segir að sé mun meira en sést hafi í viðlíka atkvæðagreiðslum félagsins á síðustu árum.


Tengdar fréttir

Hafa sam­þykkt verk­falls­boðun

Starfsmenn Íslandshótela hafa samþykkt boðun um verkfallsaðgerðir. Rafræn atkvæðagreiðsla sem hófst á hádegi síðastliðinn þriðjudag lauk nú fyrir stuttu. Verkfall hefst í næstu viku, hafi samningar ekki náðst.

Hafa skilað inn stjórn­sýslu­kæru vegna ríkis­sátta­semjara

Stéttarfélagið Efling hefur skilað stjórnsýslukæru til ráðuneytis vinnumarkaðsmála vegna framferðis ríkissáttasemjara í kjaradeilu stéttarfélagsins og Samtaka atvinnulífsins. Formaður Eflingar segir það ekki koma á óvart að hafa ekki fengið fund með ráðherra í morgun. 

Takast á um félagatalið í dómsal í dag

Krafa ríkissáttasemjara um að Efling afhendi félagatala sitt, svo hægt sé að greiða atkvæði um miðlunartillögu, verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur nú eftir hádegi. Óvíst er hvenær niðurstaða liggur fyrir en óskað hefur verið eftir flýtimeðferð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×