Enski boltinn

Úti í kuldanum hjá City og á leið til Bayern

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joao Cancelo er á leið á nýjar slóðir.
Joao Cancelo er á leið á nýjar slóðir. getty/Tom Flathers

Portúgalski landsliðsmaðurinn Joao Cancelo er á leið til Bayern München á láni frá Manchester City.

Cancelo hefur verið úti í kuldanum hjá City á undanförnum vikum og hefur ekki byrjað síðustu þrjá leiki liðsins í öllum keppnum.

David Ornstein hjá The Athletic greinir frá því að Bayern sé nálægt því að ganga frá lánssamningi við Cancelo. Í honum verður væntanlega ákvæði sem gerir Þýskalandsmeisturunum kleift að kaupa Cancelo eftir tímabilið.

Cancelo var í lykilhlutverki þegar City varð Englandsmeistari á síðasta tímabili og var valinn í lið ársins í ensku úrvalsdeildinni. En hann hefur ekki spilað jafn vel í vetur og er nú búinn að missa sæti sitt í byrjunarliði City.

Félagaskiptaglugganum verður lokað annað kvöld. Ef félagaskipti Cancelos ganga í gegn gæti hann leikið sinn fyrsta leik með Bayern gegn Mainz í þýsku bikarkeppninni á miðvikudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.