Innlent

„Þetta er óþekkjanlegt“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gámur og vinnuskúr voru staðsettir þar sem rauði hringurinn er. Svörtu hringirnir sýna staðsetningu þeirra eftir flóðið.
Gámur og vinnuskúr voru staðsettir þar sem rauði hringurinn er. Svörtu hringirnir sýna staðsetningu þeirra eftir flóðið. Kristbjörn B. Einarsson

Mikið tjón varð hjá ábúendum á bænum Skollagróf í Hrunamannahreppi þegar gríðarlegt krapaflóð varð í Hvítá aðfaranótt föstudags. Bóndi segir svæðið óþekkjanlegt og man ekki eftir öðru eins flóði.

Það var í birtingu á föstudag sem krapaflóðið uppgötvaðist. Sigurður Haukur Jónsson bóndi á Skollagróf undraðist þá dökka þúst sem hann sá glitta í niður í svokölluðu Grófargili. Bóndi hugsaði með sér að þar væru líklega kýr sem hefðu hópað sig saman en við nánari eftirgrennslan kom í ljós að um var að ræða vatnstank sem borist hafði mörg hundruð metra með flóðinu.

Og flóðið tók fleira með sér; eins og sýnt er í fréttinni hér að ofan bárust gámur og vinnuskúr langa leið. Munirnir sem um ræðir eru í eigu fyrirtækisins Orion sem er með vinnusvæði í Grófarnámu. Helgi Valdimar Sigurðsson, sonur áðurnefnds bónda, var á meðal þeirra sem sinntu björgunaraðgerðum á föstudag.

„Þetta hefur örugglega verið svolítið erfitt að horfa á þetta. Það voru gröfur og vélar í krapa og vatni og allir lausamunir horfnir. Rafstöðvar og skóflur og gröfurnar og dót frá þeim sem enginn veit hvar er núna.“

Svona var aðkoman fyrst í Hvítá á föstudagsmorgun.

Við mikið átak tókst þó að bjarga stærstu tækjum. En Helgi segir þau ábúendur á Skollagróf einnig hafa orðið fyrir miklu tjóni. Flóðið hafi til dæmis hrifsað með sér girðingar á löngum köflum. Hvort tjón hafi orðið á túnum verði að koma í ljós þegar leysir.

Munið þið eftir öðru eins? 

„Nei. Allavega ekki ég og ekki eldri menn heldur. Þetta er mikið hærra og meira inni á landi en hefur komið áður.“

Kristbjörn Borgþór Einarsson veður út að gröfunni í von um að hún færi í gang, sem hún og gerði.Aðsend

Og hvernig er að horfa yfir þetta, er svæðið alveg óþekkjanlegt? 

„Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvar er hvað. Þetta er óþekkjanlegt.“

Mikill krapi er enn í gljúfrinu við bæinn þó að stíflan hafi brostið á föstudag, að sögn Helga. Áfram verði fylgst vel með stöðunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×