Fótbolti

Tvö mörk dæmd af Milan sem stein­lá á heima­velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Oliver Giroud skoraði tvö mörk í dag en annað þeirra var dæmt af.
Oliver Giroud skoraði tvö mörk í dag en annað þeirra var dæmt af. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

AC Milan tapaði 5-2 fyrir Sassuolo í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. AC Milan hefur fengið á sig þrjú mörk eða meira í þremur leikjum í röð.

Oliver Giroud skoraði fyrsta mark leiksins en það var dæmt af vegna rangstöðu. Gestirnir nýttu því tækifærið og Gregoire Defrel kom þeim yfir á 19. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Davide Frattesi forystu gestanna.

Oliver Giroud minnkaði muninn á 24. mínútu en Domenico Berardi, sem hafði lagt upp fyrstu tvö mörk gestanna, skoraði þriðja mark Sassuolo þegar aðeins hálftími var liðinn. Þó fjögur mörk hafi verið skoruð á fyrsta hálftíma leiksins þá var ekkert skorað fram að hálfleik og staðan 1-3 þegar liðin gengu til búningsklefa.

Strax í upphafi síðari hálfleik fengu gestirnir vítaspyrnu. Armand Lauriente tók spyrnuna og skoraði fjórða mark Sassuolo. Ante Rebić minnkaði muninn fyrir Mílanóliðið á 55. mínútu en aftur var markið dæmt af heimamönnum.

Matheus Henrique bætti fimmta marki gestanna við áður en Divock Origi minnkaði muninn og nú stóð mark heimamanna, lokatölur 2-5. Eftir leik dagsins er Milan í 4. sæti með 38 stig að loknum 20 umferðum, 12 minna en topplið Napoli. Sassuolo er í 16. sæti með 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×