Magnað mark Mitoma skaut Liverpool úr leik
Hinn japanski Kaoru Mitoma skaut Brighton & Hove Albion í 5. umferð ensku bikarkeppninnar þegar Brighton vann bikarmeistari Liverpool 2-1 á heimavelli sínum í dag.
Harvey Elliott kom Liverpool yfir í dag en forystan entist aðeins í níu mínútur. Miðvörðurinn Lewis Dunk jafnaði þá metin eftir að skot Tariq Lamptey hafði viðkomu í honum og fór þaðan í netið. Staðan 1-1 í hálfleik.
They all count @OfficialBHAFC#EmiratesFACup pic.twitter.com/fkJKiYurA4
— Emirates FA Cup (@EmiratesFACup) January 29, 2023
Brighton var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og varði Alisson til að mynda meistaralega í marki gestanna. Það stefndi þó allt í að liðin þyrftu að mætast á nýjan leik þar sem staðan var enn jöfn 1-1 þegar venjulegur leiktími rann sitt skeið.
Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma átti Pervis Estupinan sendingu á Mitoma sem tók snyrtilega við boltanum, lagði hann fyrir sig og þrumaði honum í netið.
OH. MY. WORD.@kaoru_mitoma with a late stunner for @OfficialBHAFC #EmiratesFACup pic.twitter.com/R6bfaXSGVW
— Emirates FA Cup (@EmiratesFACup) January 29, 2023
Reyndist það sigurmarkið og Brighton komið áfram í 5. umferð ensku bikarkeppninnar. Þar með er ljóst að Liverpool ver ekki bikartitil sinn.